Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.12.2013 19:38

Siggeir Ingólfsson Sunnlendingur ársins 2013

Siggeir Ingólfsson, Geiri á Bakkanum, uppi á útsýnispallinum við samkomuhúsið Stað.
Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Siggeir Ingólfsson Sunnlendingur ársins 2013

 

Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka, var kjörinn Sunnlendingur ársins 2013 af lesendum Sunnlenska fréttablaðsins og sunnlenska.is.

Í upphafi árs tók Friðsæld ehf., fyrirtæki Siggeirs og konu hans Regínu Guðjónsdóttur við daglegum rekstri samkomuhússins á Eyrarbakka. Í kjölfarið hefur Siggeir, eða Geiri eins og hann er ávallt nefndur, sýnt mikla framtakssemi í ferða- og menningarmálum á Bakkanum þar sem hann opnaði þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn á Stað og hefur haft meira en nóg að gera.

Stærsta verkefni ársins var að byggja skábraut fyrir hjólastóla upp á útsýnispall við sjóvarnargarðinn við Stað svo að allir geti notið hins frábæra útsýnis sem er af garðinum niður í fjöruna og út á Atlantshafið. Siggeir vann ötullega að þessu verkefni frá því síðla sumars og fram á haust og var mannvirkið tekið í notkun í október síðastliðnum.

„Nei, þú ert djóka!“ sagði Geiri, hreinskilinn eins og alltaf, þegar honum voru færðar fréttirnar af kjörinu. „Ég þakka kærlega fyrir þennan heiður sem mér er sýndur en það er töluvert langt frá því að ég hafi staðið einn í því að byggja skábrautina. Það þarf einhvern einn léttklikkaðann til að standa fyrir svona verkefni, einhvern sem er á endanum á bandinu og dregur vagninn áfram en það voru margir sem hjálpuðu mér og lögðu hönd á plóg við smíðina. Það voru líka margir sem litu við og fylgdust með framkvæmdinni og hvöttu okkur til dáða og mér þótti ekki síður vænt um það,“ sagði Geiri í samtali við sunnlenska.is.

 

Tveir ungir herramenn á Selfossi fylgdu Geira fast á eftir í kjörinu á Sunnlendingi ársins, í öðru sæti varð Tómas Birgir Frímannsson sem fæddist þann 10. september síðastliðinn  fimmtán vikum fyrir tímann og útskrifaðist af vökudeild rétt fyrir jól. Þriðji varð síðan Reykdal Máni Magnússon sem knésetti íslenska ríkið í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í desember, en héraðsdómur hrinti úrskurði mannanafnanefndar sem hafði hafnað beiðni drengsins um að bera eiginnafnið Reykdal.

Alls fengu þrjátíu Sunnlendingar atkvæði í kjörinu og var þátttakan góð eins og síðustu ár.

 

Nánar verður rætt við Sunnlending ársins í fyrsta tölublaði Sunnlenska árið 2014.

Af www.sunnlenska.is

Siggeir Ingólfsson, Sunnlendingur ársins 2013, horfir strax til ársins 2014 með athafnaþrá í happafullri samvinnu aðila í samfélaginu.

 

 

Skráð af Menningar-Staður