Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.01.2014 07:01

Haukur - Ingi Heiðmar Jónsson skrifar


Eyrbekkingurinn Haukur Guðlaugsson.

 

Haukur – Ingi Heiðmar Jónsson skrifar

 

Langan veg sótti margur organisti til Skálholts á seinasta fjórðungi aldarinnar en á þeim árum stóðu námskeið Hauks Guðlaugsson söngmálastjóra fyrir organista og kirkjukóra. Námskeiðin voru alla jafnan seint í ágúst, hófust á mánudegi með hljóðfæra-, radd- og tónfræðikennslu fyrir organistana,

lota sem stóð fram á föstudag en þá fóru að birtast kórmenn úr heimabyggðum organistanna, komu sumir á fimmtudagskvöldi og enn þrengdist í Sumarbúðunum, oft voru settar dýnur í skólastofur heima í Skálholtsskóla og stundum var fengið húsnæði til viðbótar upp í Reykholtshverfi.

Öll þessi umsvif sigldu áfram undir ljúfri umsjón Hauks sjálfs, meistarans að þessari framkvæmd allri, aðstoðarmaður kom venjulega með honum af skrifstofunni en síðan gekk maður undir manns hönd þegar kom til kastanna.

 

Tengjum sál við sál segir stundum í draumsýn söngtextanna og segja má að þessi draumur hafi stundum fundið leið til raunveruleikans á þessum organistanámskeiðum Hauks, kórar voru æfðir og einsöngvarar, forspil og fagnaðarsöngvar þegar messan fyrir sunnudeginn tók að mótast, kennarar Glúmur og Jónas æfðu söngstjóraefnin, Fríða Lárusdóttir var sú sem orgelleikararnir settu traust sitt á og söngvarar hlýddu á hvert orð Guðrúnar Tómasdóttur söngkonu. Ýmsir fleiri komu að kennslunni, fjölritun og öðrum undirbúningi en þessir söngþegnar kirkjunnar fögnuðu hjartanlega þessari fræðslu og þjálfun sem hér bauðst og víða bundust vinabönd sem endurnýjuð voru með hverju nýju ári.

 

Ég vona að við hittumst öll að ári

aftur verði sælustunda notið

sálartetrið tryggt gegn kreppu og fári

tign og gleði æðsta máttar lotið.

 

 Ofanskráða vísu flutti Ingibjörg Bergþórsdóttir í Fljótstungu félögumsínum og var einn af trúföstum gestum á námsskeiðinu, Miðfirðingar, Súðvíkingar, Mýrdælingarmeð einsöngvarann Pál Rúnar, kór Kópavogskirkju með Guðmundi Gilssyni, Ingvar úr Eyjum og Ólafur  organisti í Forsæti eru nöfn þátttakenda er koma fljótt upp í hugann en ógleymanlegust er þó þingeyski organistinn og fræðakonan Björg Björnsdóttir frá Lóni. Þessi smávaxna ákafakona kenndi félögum sínum druslur og rifjaði upp gamlar vísur þegar komið var saman í Aratungu á föstudagskvöldinu til að skemmta sér. Dagskrá ýmissa söngvara og annarra listamanna stóð fyrri hluta kvöldsins en svo gripu Reynir og Þorvaldur nikkur sínar og léku fyrir dansi í lokin.

 

 Gunnar Kvaran, sellóleikari og náinn samstarfsmaður Hauks sagði í afmælisgrein um meistarann: „Ég minnist þátttöku í organistanámskeiðum í Skálholti á vegum söngmálastjóraembættisins. Fyrir mér mynduðu þessi námskeið kjarnann í starfi Hauks fyrir landsbyggðina. Þessi námskeið voru geysilega vinsæl. Á þau komu organistar og söngfólk víðsvegar af landinu og það var mikil gleði, eftirvænting og þakklæti sem geislaði af þessu fólki. Í þessari starfsemi sýndi Haukur einstaka hæfileika til að ná til fólksins, hrífa það og virkja. Haukur má ekkert aumt sjá, hjálpsemi hans, greiðvikni og hvatningu er við brugðið.“

 

Haukur ólst upp við brimströndina á Eyrarbakka, fór til náms í Reykjavík og út til Þýskalands, varð þekktastur af störfum sínum við söngmál kirkjunnar, en organisti og kórstjóri var hann á Siglufirði en síðar lengi á Akranesi. Þau hjónin eignuðust síðar hús í Þingholtunum þar sem Haukur gat fundið pípuorgelinu stað í hlýju ævikvölds. Þegar Haukur gaf út hljómdisk með orgelleik sínum fyrir nokkrum árum orti kollegi hans Glúmur Gylfason organisti á Selfossi:

 

Kirkjan góðan Hauk í horni

hefur átt

hans sér lengi enn við orni

organslátt.Selfossblaðið 16. janúar 2014 - Ingi Heiðmar Jónsson


Ingi Heiðmar Jónsson og félagar í Grænu-mörk á Selfossi.

F.v.: Ingi Heiðmar Jónsson, Þórarinn Ólafsson á Eyrarbakka og Sigurður Torfi Guðmundsson.

 

Skráð af Menningar-Staður