Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.01.2014 06:37

Torfbæir fallegastir í vetrarbúningi


Gamli bærinn í Austur-Meðalholti í Flóahreppi.
.

Hannes Lárusson.

 

Torfbæir fallegastir í vetrarbúningi

 

Íslenski bærinn í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi verður formlega opnaður gestum í vor. Verkefnið hlaut nýlega styrk úr þróunarsjóðnum Ísland allt árið, sem verður notaður til að auka vetrarferðamennsku. Hannes Lárusson ólst upp í bænum.

 

Torfbæjararfurinn er jafn mikilvægur og bókmenntirnar okkar, á sér meira en þúsund ára sögu og hefur fylgt okkur nær alla búsetuna í landinu. Hann hefur hins vegar verið utangarðs og á margan hátt rangtúlkaður síðustu áratugi. Í íslenska bænum sameinast í rauninni sjálft landið og menningin, hann er að mínu mati eitt fágaðasta framlag norðurhjarans til heimsmenningarinnar,"segir Hannes Lárusson myndlistarmaður sem vill hefja íslenskan torfbæjararf til vegs og virðingar. Hann stofnaði fyrir all mörgum árum rannsóknar-, fræðslu- og sýningarstofnunina Íslenski bærinn, sem hefur það að markmiði að varðveita þennan byggingararf og þá verkþekkingu og hugmyndafræði sem honum tengist.

 

Ólst upp í torfkofa

Upphafið að þessu verkefni má rekja til fyrstu ára í lífi Hannesar, en hann ólst upp í gamla bænum í Austur-Meðalholtum sem er skammt suður af Selfossi. "Áhugi minn og skilningur á torfbæjararfinum óx mikið upp úr 1985 þegar byrjað var að endurbyggja og bjarga torfbænum í Austur-Meðalholtum. Þá komst ég í góð kynni við Hörð Ágústsson húsafræðing sem var guðfaðir þess verkefnis," segir Hannes. Hann og Kristín Magnúsdóttir kona hans standa að Íslenska bænum sem er einkaframtak en hefur fengið nokkra styrki.

Torfbæir um land allt koma við sögu hjá Íslenska bænum. "Sérstök áhersla verður lögð á þann mun sem var á torfbæjum milli landshluta, byggingarefni og verksvit sem birtist í stórum sem smáum byggingum," segir Hannes. Tveir meginþættir eru í aðalhlutverki. "Annars vegar er það

hlýja og fegurð húsanna og hins vegar verktæknin," segir Hannes. Umgjörð Íslenska bæjarins er húsaþorpið að Austur-Meðalholtum. Þar stendur nú gamli bærinn ásamt útihúsum. "Þá eru nokkur hús í byggingu í samstarfi við Hleðsluskólann sem heldur reglulega námskeið á staðnum. Í sumar er til dæmis fyrirhugað tíu daga alþjóðlegt námskeið í vistvænni en um leið framsækinni byggingarlist, sem sækir m.a. innblástur í okkar innlenda arf og landkosti," upplýsir Hannes.

 

Búist við þúsundum gesta

Nú er verið að leggja lokahönd á nýja safnabyggingu sem hefur verið í byggingu í átta ár. "Við höfum alltaf lagt áherslu á vistvæna byggingartækni og reynt að ganga eins langt og hægt er við íslenskar aðstæður," segir Hannes. Gestir munu geta skoðað öll húsin á svæðinu auk þess sem í safnahúsinu verður yfirgripsmikil sýning. Þá verður hægt að handleika nær öll þekkt verkfæri sem notuð hafa verið við veggjahleðslu og torfskurð í gegnum aldirnar.

Stefnt er að því að Íslenski bærinn dragi til sín tugi þúsunda ferðamanna á næstu árum en verkefnið hlaut nýverið tveggja milljóna króna styrk úr þróunarsjóðnum Ísland allt árið. "Sá styrkur verður notaður til að byggja upp vetrarferðamennsku. Enda er það mín skoðun að íslenski torfbærinn sé aldrei fallegri en í vetrarbúningi."

 

.

Fréttablaðið laugradagurinn 25. janúar 2014

Skráð af Menningar-Staður