Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.01.2014 06:26

Hart deilt um kosningu stjórnar RÚV

 

Hart deilt um kosningu stjórnar RÚV

• Meirihlutinn fékk sex fulltrúa en minnihlutinn þrjá • Eðlilegt að kosning stjórnar endurspegli niðurstöður þingkosninga, segir menntamálaráðherra • Spurðu um áætlanir meirihlutans varðandi RÚV

 

Kosið var í stjórn Ríkisútvarpsins á Alþingi í gær og fékk stjórnarmeirihlutinn sex fulltrúa kjörna en minnihlutinn þrjá. Kosið var um lista meirihlutans annars vegar og lista minnihlutans hinsvegar og fékk sá fyrri 38 atkvæði en sá seinni 25.

Nýja stjórn skipa Ingvi Hrafn Óskarsson, Magnús Stefánsson, Guðrún Nordal, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Ásthildur Sturludóttir og Guðlaugur G. Sverrisson, fulltrúar meirihluta, og Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson, fulltrúar minnihluta. Varamenn eru Jón Hákon Magnússon, Árni Gunnarsson, Gabríela Friðriksdóttir, Katrín Sigurjónsdóttir, Jóhanna Pálsdóttir og Þuríður Bernódusdóttir, fulltrúar meirihluta, og Árni Gunnarsson, Hlynur Hallsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir, fulltrúar minnihluta.

Mikill hiti var í þingmönnum fyrir atkvæðagreiðsluna og m.a. gerð hróp að forsætisráðherra. Deilt var um fjölda fulltrúa meiri- og minnihluta í stjórninni og m.a. vísað í umdeilt samkomulag um skiptinguna; fimm á móti fjórum. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði eðlilegt að stjórn RÚV endurspeglaði niðurstöður síðustu alþingiskosninga en Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, benti þá á að stjórnarflokkarnir hefðu fengið 51,1% atkvæða í kosningunum, sem samsvaraði fimm sætum.

 

Breidd innan hópsins?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að fjölgun stjórnarmanna úr sjö í níu hefði aldrei verið samþykkt ef legið hefði fyrir að meirihlutinn ætlaði sér báða viðbótarfulltrúana og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, og Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, veltu upp þeirri spurningu hvaða áætlanir meirihlutinn hefði sem krefðust sex manna meirihluta.

Þá voru menn ekki á einu máli um að tekist hefði að auka breiddina í stjórn RÚV með því að fjölga í henni um tvo fulltrúa.

„Varðandi það að breikka í stjórn Ríkisútvarpsins þá veit ég ekki betur en að Ingvi Hrafn Óskarsson sé fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, veit ekki betur en að Magnús Stefánsson sé fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ég veit ekki betur en að Úlfhildur Rögnvaldsdóttir sé fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, ég veit ekki annað en Ásthildur Sturludóttir sé núverandi sveitarstjóri Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki annað en að Guðlaugur Geir Sverrisson sé fyrrverandi formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, stjórnar Orkuveitunnar og frambjóðandi á vegum Framsóknarflokksins. Þetta er breiddin, hæstvirti menntamálaráðherra,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.

Jón Þór Ólafsson, formaður Pírata, velti upp þeirri spurningu hvort almenningur ætti ekki að fá að kjósa þá fulltrúa sem skipuðu stjórn RÚV, þar sem um væri að ræða fjölmiðil í almannaþágu.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 29. janúar 2014

Margrét Frímannsdóttir frá Stokkseyri og fangelsisstjóri á Litla-Hrauni á Eyrarbakka er í stjórn RUV.

.

Jón Hákon Magnússon í Norðurkoti á Eyrarbakka er í varstjórn RUV. Hér er hann til vinstri ásamt Siggeiri Ingólfssyni í spjalli á Stað.

 

Skráð af  Menningar-Staður