Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.01.2014 06:43

Merkir Íslendingar - Örn Snorrason

Örn Snorrason.

 

Merkir Íslendingar - Örn SnorrasonÖrn Snorrason, kennari og rithöfundur, fæddist á Dalvík 31. janúar 1912. Foreldrar hans voru Snorri Sigfússon, skólastjóri á Flateyri, og síðar námsstjóri Norðurlands með búsetu á Akureyri og k.h., Guðrún Jóhannesdóttir húsfreyja.

Snorri var sonur Sigfúsar Jónssonar, bónda á Brekku og Grund í Svarfaðardal og k.h., Önnu Sigríðar Björnsdóttur húsfreyju. Guðrún var dóttir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín, bónda á Þönglabakka og Kussungsstöðum í Þorgeirsfirði, og k.h., Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur húsfreyju.

Eiginkona Arnar var Ragnheiður Hjaltadóttir húsfreyja og eignuðust þau tvö börn, Hjalta og Guðrúnu.

Örn lauk stúdentsprófi frá MA 1933, las guðfræði við HÍ í tvö ár og lauk cand.phil.-prófi þaðan 1934, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1936 og sótti kennaranámskeið í Askov.

Örn var lengst af kennari við Barnaskólann á Akureyri, á árunum 1937 til 1960, kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-66, Barnaskólann á Hellu á Rangárvöllum í eitt ár og loks við Álftamýrarskóla í Reykjavík 1967-70. Þá var hann prófarkalesari á Vísi og síðar á DV 1970-84. Hann kenndi einnig við MA og var prófdómari þar um árbil.

Örn orti töluvert á sínum yngri árum, oft hnyttin tækifæriskvæði, en sum kvæða hans eru enn sungin í Menntaskólanum á Akureyri. Hann notaði þá oftast dulnefnið Aquila sem merkir örn á latínu.

Örn sendi frá sér Nokkrar réttritunarreglur, Íslandssöguvísur og ýmsar barna- og drengjabækur. Auk þess birtust eftir hann smásögur, greinar og ljóð í blöðum og tímaritum. Þá var hann afkastamikill þýðandi, þýddi fjölda barnabóka og m.a. bækurnar um Paddington.

Örn var félagi í Kantötukór Akureyrar og í Karlakórnum Geysi á Akureyri og fór utan með utanfararkór Sambands íslenskra karlakóra 1946.

Örn Snorrason lést l. október1985.

Morgunblaðið 31. janúar 2014 - Merkir Íslendingar


Skráð af Menningar-Staður