Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.02.2014 20:36

Erlingur Rafn Viggósson - Fæddur 28. apríl 1928 - Dáinn 31. janúar 2014 - Minning

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Erlingur Rafn Viggósson.

 

Erlingur Rafn Viggósson - Fæddur 28. appríl 1928 - Dáinn 31. janúar 2014 - Minning

 

Erlingur Rafn Viggósson fæddist 28. apríl 1928 í Strýtu í Flatey á Breiðafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 31. janúar 2014.

 

Foreldrar hans voru María Þórðardóttir, f. 15. ágúst 1904, d. 13. júlí 1980, frá Hofstöðum í Gufudalssveit og faðir hans var Viggó Bjarnason, f. 27. september 1901 í Hergilsey á Breiðafirði, d. 15. mars 1977. Systkini: Bjarni Viggósson, f. 1929, d. 1988, Eysteinn Jóhannes Viggósson, f. 1931, Kristján Viggósson, f. 1933, d. 1986, Ýr Viggósdóttir, f. 1934, d. 2004, Kolbrún Viggósdóttir, f. 1935.

Erlingur ólst upp í Stykkishólmi og hóf þar búskap á Skúlagötu 2, með Siggerði Þosteinsdóttur, f. 9. ágúst 1931, eiginkonu sinni frá Mel á Eskifirði. Árið 1970 fluttu þau hjón til Reykjavíkur, bjuggu eitt ár á Akureyri 1974 og störfuðu þar við Leikfélag Akureyrar, fluttu til Alicante á Spáni 1992 en samhliða áttu þau hjón sumarhús á Ósi á Eyrarbakka sem varð síðar þeirra heimili. Síðasti dvalarstaður Erlings og Siggerðar var dvalarheimilið Ás í Hveragerði þar sem Siggerður lést 7. ágúst 2010. Erlingur og Siggerður kynntust á Siglufirði þar sem bæði unnu við síld. Þau giftust 1. janúar 1950 og eignuðust fjögur börn: Marvin Ágúst, f. 1949, sem lést mánaðargamall, Anna Droplaug, f. 1949, María Dröfn, f. 1954, Þorsteinn Erlingur, f. 1959. Erlingur og Siggerður eignuðust níu barnabörn og fjórtán barnabarnabörn.

Erlingur stundaði lengst af sjómennsku frá Stykkishólmi og Rifi á Snæfellsnesi, bæði sem skip- og vélstjóri. Fjórtán ára gamall fór hann sína fyrstu sjóferð og hafði sjómennsku að atvinnu í 25 ár en hóf hann þá nám í skipasmíði og flutti til Reykjavíkur. Þar starfaði hann í Daníelsslipp og síðustu starfsárin við bryggjusmíði hjá Reykjavíkurhöfn. Erlingur var alla sína tíð virkur og róttækur í félagsmálum og pólitík. Skráði sig 16 ára í Sósíalistaflokkinn og var meðal annars formaður Verkalýðsfélags Stykkishólms, sat í stjórn Sjómannasambands Íslands, í stjórn ASÍ, formaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík, stofnfélagi Samfylkingarinnar, stjórnarmaður í Hafnarstjórn Reykjavíkurhafna, starfaði innan Iðnemasambandsins, var virkur þátttakandi í Ísland DDR (Þýsk-íslenska menningarfélagið), KÍM (Kínverska íslenska menningarfélagið), og MÍR (Menningarfélag Íslands og Rússlands). Erlingur var einnig áhugamaður um leiklist, lék nokkur hlutverk í leikhúsi og kvikmyndum.

Erlingur var jarðsunginn frá Eyrarbakkakirkju í dag, laugardaginn  8. febrúar 2014.

____________________________________________________________________

Minningarorð Svavars Gestssonar

Erlingur Viggósson var áhrifamaður í Alþýðubandalaginu í Stykkishólmi og svo á Vesturlandi á síðari hluta sjöunda áratugarins. Þau Sirrý, Siggerður kona hans, fluttu svo til Reykjavíkur og tóku óðara til hendinni í margskonar flokksstarfi. Um skeið var Erlingur virkur í borgarmálastarfi flokksins og sat í hafnarstjórn. Hann tók þátt í starfi Alþýðubandalagsins á landsvísu og þóttist hafa sérstakan áhuga á því að efla samstarf við Sovétríkin um tíma. Það var ekki vinsælt og hann fékk fá atkvæði til trúnaðarstarfs í flokknum á landsfundi einum einkum af þeim ástæðum. Þá dagana voru ekki gleðisamtöl milli okkar Erlings. En hann var aldrei langt undan – líka vegna þess að hann var að vestan og kunni Flatey utan að.

En umfram allt voru þau hjón, Erlingur og Sirrý, góðir vinir vina sinna og sérstaklega skemmtilegt fólk og gátu verið ákaflega fyndin þegar sá gállinn var á mannskapnum. Þau voru einstaklega velheppnað par á alla lund. Erlingur hafði gaman af því að segja sögur. Og var góður að segja þær. Falskar tennur sem lentu milli brjóstanna á meðleikaranum í Stykkishólmi, eða maðurinn sem batt raketturnar við stakketið í kringum húsið sitt á gamlárskvöld með augljósum afleiðingum. Eða sá sem fór í búð á Englandi og sagði frá því stoltur að hann hefði keypt föt hjá Marx og Engels sem voru víst Marks og Spencer. Og svona sögur meinlausar utan endis.

Erlingur gekk gjarnan með alpahúfi hallandi út í annað. Svo fluttu þau til Spánar þar sem allir eru með alpahúfur. Þar stappaði nærri gjaldþroti en þau náðu að halda einhverju eftir af reytum sínum og keyptu Ós á Eyrarbakka. Það varð fallegasta hús þorpsins áður en við var litið ef hús skyldi kalla. Því það var svo lítið og er. Allt notalegt og svo skemmtilegt, fullt af gleði. Ekki var það verra að um það leyti áttum við Guðrún skjól í Inghóli, örhýsi á bak við Rauða húsið. Þá var stundum stutt á milli bæja.

Um það leyti sem Erlingur bjó á Eyrarbakka og þau Sirrý, en eftir að við Guðrún fórum þaðan, bjó á bakkanum sonarsonur minn og nafni með mömmu sinni. Hann var ekki hávaðamaður og er ekki. Einhvern tíma sagði Sirrý okkur frá því að sá hefði samt haft uppburði í sér til að koma í heimsókn að Ósi. Oftar en einu sinni. Komstu á Ós? spurði ég barnið. Ha? Komstu til Sirrýjar? Já. Af hverju? Ég fékk pönnukökur.

Þetta var þeim Erlingi líkt. Þau voru höfðingjar á tilfinningar sínar. Þangað kom fólk til að skynja hlýju. Meðan þau bjuggu í kjallaranum í Gnoðarvogi kom stundum til þeirra nærri bláókunnugt fólk til þess að fá að leggja sig. Og fékk að leggja sig.

Nú eru þau bæði horfin á braut; þau leggja sig í kirkjugarðinum á Eyrarbakka þaðan sem sést til Suðurskautslandsins ef maður hefði nógu góða sjón.

Niðjum Erlings og Sirrýjar flytjum við Guðrún samúðarkveðjur um leið og ég þakka fyrir að hafa fengið að vera samferða þessu góða fólki.

Svavar Gestsson.

Morgunblaðið laugardagurinn 8. febrúar 2014 

 

Skráð af Menningar-Staður