Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.02.2014 05:04

Merkir Íslendingar - Tryggvi Þórhallsson

Tryggvi Þórhallsson.Merkir Íslendingar - Tryggvi Þórhallsson

 

Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra fæddist í Reykjavík 9. febrúar 1889. Hann var sonur Þórhalls Bjarnarsonar biskups og k.h., Valgerðar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar Þórhalls voru Björn Halldórsson, prófastur í Laufási, og Sigríður Einarsdóttir húsfreyja, en Valgerður var fósturdóttir Tryggva Gunnarssonar bankastjóra.

 

Systir Tryggva Þórhallssonar var Dóra, síðar forsetafrú. Meðal barna Tryggva og konu hans, Önnu Guðrúnar Klemensdóttur, má nefna Klemens hagstofustjóra og bankastjórana Þórhall og Björn.

 

Tryggvi lauk embættisprófi í guðfræði og var prestur á Hesti í Borgarfirði frá 1913. Hann varð ritstjóri Tímans 1917, alþm. Strandasýslu 1923 og formaður Framsóknarflokksins 1927.

 

Tryggvi og Jónas frá Hriflu héldu uppi harðri stjórnarandstöðu við íhaldsstjórn Jóns Þorlákssonar, skipulögðu kosningafundi og riðu til þeirra um fjallvegi og vegleysur.

 

Framsókn sigraði kosningarnar 1927 og Tryggvi varð forsætisráðherra og Jónas dómsmálaráðherra í fyrstu vinstristjórninni.

 

Stjórnin var athafnasöm í góðærinu en haustið 1930 skall kreppan á af fullum þunga. Stjórnin missti stuðning Alþýðuflokksins vegna ágreinings um kjördæmamál og Tryggvi rauf þá þing sem frægt varð, 1931. Í kosningunum sem fylgdu í kjölfarið fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi. Stjórn Tryggva sat fram á vor 1932 en ári síðar sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn. Hann fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill, og var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 og til æviloka.

 

Tryggvi var fríður sýnum, drenglundaður, glaðsinna og gætinn. Hann naut almennra vinsælda og virðingar mótherja sinna.

 

Tryggvi lést 31. júlí 1935.


Morgunblaðið laugardagurinn 8. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar

 

 

Skráð af Menningar-Staður