Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.02.2014 06:21

Fjölga þarf hjúkrunarrýmum á Suðurlandi

Ásta Stefánsdóttir.

 

Fjölga þarf hjúkrunarrýmum á Suðurlandi

 

Sveitarfélögin í Árnessýslu hafa látið taka saman yfirlit yfir hvaða leiðir séu færar til að fjölga hjúkrunarrýmum í sýslunni. Mikil þörf er fyrir fjölgun slíkra rýma þar sem að jafnaði eru um 25-30 manns á biðlista eftir hjúkrunarrýmum á svæðinu. Brýnt er að móta stefnu um uppbyggingu hjúkrunarheimila á Suðurlandi til lengri tíma litið. Landshlutinn hefur ekki notið þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í málaflokknum á síðustu árum og er uppsafnaður vandi því nokkur. Velferðarráðuneytið hefur boðað að þegar ný framkvæmdaáætlun verði unnin verði hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu skoðaðar. Telja verður að ekkert sé að vanbúnaði að hefja vinnu við framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og er mikilvægt að hafist verði handa við þá vinnu sem fyrst.

Þar sem ríkið gerir ekki ráð fyrir fjármagni til framkvæmda í fjárlögum eða langtímaáætlun um útgjöld ríkissjóðs er ljóst að brúa þarf bilið. Bent hefur verið á leiðir til að fjölga hjúkrunarrýmum án þess að ráðast í nýbyggingar. Annars vegar er hægt að nýta betur það húspláss sem fyrir hendi er í dag og hins vegar er hægt að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Dæmi eru um að dvalar- og hjúkrunarheimili hafi ónýtt húspláss á sama tíma og önnur heimili fullnýta ekki sínar heimildir vegna plássleysis. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er hafin vinna við að skoða nýtingu rýma á landinu öllu og er brýnt að niðurstöður þeirrar vinnu og áætlun um úrbætur liggi fyrir sem fyrst, enda óviðunandi að það húsrými sem til er sé ekki fullnýtt þegar þörf fyrir rými er jafnbrýn og raun ber vitni.

Sveitarfélögin á þéttbýlli svæðum Árnessýslu hafa komið á kvöld- og helgarvakt í félagslegri heimaþjónustu. Sú þjónusta, samhliða heimahjúkrun á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, gerir fólki kleift að dvelja lengur á eigin heimili og hefur því dregið úr þörf fyrir dvalarrými fyrir íbúa í þéttbýli. Dæmi eru því um að lítil eftirspurn sé eftir dvalarrýmum á svæðinu og mætti breyta hluta dvalarrýma í hjúkrunarrými. Í nokkrum tilvikum hafa heimilin fengið heimildir til að skipta tveimur dvalarrýmum fyrir eitt hjúkrunarrými. Á þeim svæðum þar sem biðlistar eru langir væri eðlilegt að heimila skipti á einu dvalarrými á móti einu hjúkrunarrými, gegn því að hjúkrunarþjónusta væri aukin til samræmis við það. Hluta af rekstrarvanda margra hjúkrunar- og dvalarheimila má rekja til þess að einstaklingum sem hafa verið teknir inn í dvalarrými hefur hrakað heilsufarslega og hafa því í reynd þörf fyrir að vera í hjúkrunarrými. Þannig bíða margir inniliggjandi í dvalarrými eftir að hjúkrunarpláss losni. Heimilin sinna þessum einstaklingum eins og þarfir þeirra krefjast og veita þeim hjúkrunarþjónustu án þess að fá greitt fyrir það, en verulegur munur er á framlögum vegna dvalar- og hjúkrunarrýma.

Með framangreindum breytingum næðist betri nýting á því húsnæði sem þegar er fyrir hendi, stytta mætti biðlista og draga úr flutningum fólks á hjúkrunarheimili langt frá heimili sínu, eins og fjölmörg dæmi eru um í dag. Slíkt finnst mörgum erfitt og er það vel skiljanlegt.

Eðlilega ræðst kostnaður við uppbyggingu hjúkrunarrýma af stærð þess húsnæðis sem byggja þarf. Í þeim samningum sem ríkið hefur gert við sveitarfélög um uppbyggingu hjúkrunarrýma á síðustu árum hefur verið gerð krafa um að hvert rými sé 75 fermetrar, inni í þeirri tölu eru einkarými íbúa, stoðrými, sameiginlegt rými í hverri einingu og aðstaða starfsfólks. Miðað er við að heimilin séu byggð upp sem litlar einingar fyrir 6-10 íbúa með rúmgóðu einkarými (ígildi stúdíóíbúðar) og er það rými gjarnan 32-35 fermetrar. Stærðarviðmið þetta er hvergi lögfest, heldur er miðað við skilgreiningar sem félags- og tryggingamálaráðuneytið gaf út árið 2008. Velta má upp þeirri spurningu hvort rýmin mættu ekki vera aðeins minni, ef með því tækist að byggja upp fleiri rými fyrir sambærilegt fjármagn. Nauðsynlegt er að nýta fjármagn með skynsamlegum hætti, nýta sem best það húsnæði sem fyrir hendi er og skapa með því möguleika á að sinna fleiri einstaklingum sem þurfa nauðsynlega á þjónustu að halda.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Morgunblaðið þriðjudagurinnn 11. febrúar 2014

 

Skráð af Menningar-Staður