Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.02.2014 06:30

Merkir Íslendingar - Lárus Pálsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Lárus Pálsson

 

Merkir Íslendingar - Lárus Pálsson

 

Lárus Pálsson leikari fæddist í Reykjavík 12. febrúar 1914. Hann var sonur Óskars Lárussonar, trésmíðameistara í Reykjavík, og k.h., Jóhönnu Þorgrímsdóttur húsfreyju.

Eiginkona Lárusar var Mathilde Marie, f. 1912, dóttir Othars Peter Ellingsen, kaupmanns í Reykjavík.

 

Lárus lauk stúdentsprófi frá MR 1934, stundaði nám við leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan 1937. Hann var leikari við Konunglega leikhúsið 1937-39 og á Ridderasalnum undir stjórn Sams Besekow, eins fremsta leikstjóra Dana, 1939-40.

Lárus kom heim í Petsamo-förinni frægu, 1940, síðustu skipaferð frá meginlandi Evrópu áður en styrjaldarátökin tóku fyrir slíkar samgöngur. Hann var leikari og leikstjóri við Leikfélag Reykjavíkur 1940-50 og við Þjóðleikhúsið frá stofnun þess 1950 og til starfsloka. Auk þess starfaði hann mikið að leiklistarmálum ríkisútvarpsins. Þá stofnaði Lárus fyrsta leiklistarskólann hér á landi 1940 og starfrækti hann til 1954.

Lárus er almennt talinn einn mesti áhrifavaldur íslenskrar leikhússögu. Hann var vel menntaður leikari, hafði komist til umtalsverðra metorða í Kaupmannahöfn, var fyrstur íslenskra leikara til að starfa eingöngu að leiklist, var afburða leikari og leikstjóri og áhrifaríkur kennari flestra helstu leikara þjóðarinnar sem hösluðu sér völl um og upp úr miðri síðustu öld. Hann færði íslensku leikhúslífi áður óþekktar víddir og átti, ásamt Haraldi Björnssyni og Indriða Waage, mestan þátt í því að koma á leikhúsi fagfólks hér á landi.

Þorvaldur Kristinsson skrifaði ævisögu Lárusar sem út kom árið 2008. Bókin er listavel skrifuð og hvort tveggja í senn, ævisaga listamanns og heimild um hluta leiklistarsögunnar á síðustu öld. Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árið 2008.

Lárus lést 12. apríl 1968.

Morgunbkaðið miðvikudagurinn 12. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar

Skráð af Menningar-Staður