Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.02.2014 06:20

Sviðið orðið að dansgólfi

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Kiriyama Family frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi var ein sveitanna sem komu fram í Flóa.

Blaðamaður segir Hörpu hafa breyst í næturklúbb.

 

Sviðið orðið að dansgólfi

 

Það veit á gott ef meistarinn Ryuichi Sakamoto er fyrstur til að stíga á svið en hann opnaði dagskrá Sónar þetta árið ásamt Taylor Deupree. Sakamoto hefur víða drepið niður fæti en auk þess að hafa unnið til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinniThe Last Emperor hefur hann unnið með tónlistarmönnum á borð við David Bowie, David Byrne og Iggy Pop. Tvíeykið fór rólega af stað en jók smám saman kraftinn. Tilraunakenndir tónarnir fylltu Silfurberg, sem var því miður fremur tómlegt til að byrja með. Dágóður hópur tók upp á því að setjast á gólfið og myndaði það sérkennilega stemningu sem fór þó vel við draumkennd tónverk þeirra Sakamotos og Deuprees. Það var gott að viðburðurinn var sá fyrsti á hátíðinni því hann hefði eflaust ekkert komið sérstaklega vel út á milli hústónleika.

 

Danski trapparinn

Salurinn var þó heldur þéttari í Sónarflóanum þar sem Introbeats hélt uppi stuði með hústónlist sem bar keim af tíunda áratug síðustu aldar. Kappinn hefur verið viðriðinn rappsenuna hérna heima í nokkuð langan tíma og reynslan skein af honum. Það var í raun engan bilbug á honum að finna og allir virtust skemmta sér konunglega.

Í Silfurbergi tók síðan danski taktsmiðurinn Eloq við keflinu. Það má segja að taktarnir hjá honum hafi verið ansi þykkir og á köflum var ekki um neitt annað en hreinræktaða trap-tónlist að ræða. Framan af voru tónleikarnir mjög góðir og bassinn hefur eflaust hljómað alla leið upp í Breiðholt. Þegar komið var fram í mitt settið tók hann sitt besta lag, „Klonux“, en eftir það fóru gæðin að dala. Ekki nóg með að hann hafi blandað Kanye West og Jay-Z saman við settið heldur talaði hann í gríð og erg við tónleikagesti ofan í tónlistina. Dönsk enska fer ekkert sérlega vel saman við sveitta stemningu, hvað þá ef viðkomandi er væminn í orðavali.

 

Dansað og setið

Það ríkti mikil eftirvænting í loftinu þegar meðlimir GusGus hófu að tínast inn á sviðið hver á fætur öðrum. Þrátt fyrir allan þann reyk sem fylgdi sveitinni mátti sjá kynþokkafull dansspor Daníels Ágústs. Með honum á sviðinu var síðan Högni Egilsson sem hafði einmitt stigið á pall fyrr um kvöldið undir yfirheitinu HE. Tekin voru lög af plötunni Arabian Horse í bland við nýrri tóna, salurinn var troðfullur og stemningin eftir því.

Hápunktur kvöldsins var þó í Kaldalóni. Upp úr miðnætti stigu þar á svið frændsystkinin Tanya & Marlon, sem bæði hafa verið nokkuð áberandi í neðanjarðarsenunni í Reykjavík um þónokkurt skeið. Í Kaldalóni er setið og margur hefði eflaust haldið að salurinn væri betur fallinn til kvikmyndasýninga eða fyrirlestra en raftónleika. Tanya & Marlon afsönnuðu það en tónlist þeirra, í bland við myndbandsverk sem varpað var á flötinn fyrir aftan þau, kom einstaklega vel út. Það leið ekki á löngu þar til helmingur tónleikagesta var risinn úr sætum og farinn að stíga trylltan dans á sviðinu. Öryggisverðir staðarins þurftu að hafa sig alla við að passa upp á að engar snúrur eða tæki færu úr sambandi og smeygðu sér lipurlega á milli dansþyrstra gesta. Tvíeykið virtist ánægt með framtakssemi áheyrenda og hélt uppteknum hætti. Taktar sem kenna má við gamla skólann hljómuðu í bland við nýrri strauma. Sviðið var orðið að dansgólfi og þeir sem þreyttir voru í fótum gátu setið úti í sal og horft á herlegheitin.

 

Vel skipulagt

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af Hörpu sem skemmtistað. Stemningin hefur oft horfið út í tómið í stórum sölunum og hámenningarlegt umhverfið þurrkað upp það sveitta andrúmsloft sem leitað er eftir. Það verður þó að segjast að fyrirkomulagið á Sónar heppnaðist greinilega mjög vel. Hægt er að flakka á milli staða án þess að stíga út í nístingskuldann og andrúmsloftið í allri byggingunni er mjög gott. Umgjörð, ljósadýrð og tónar kvöldsins gerðu það að verkum að Harpa varð að stórum næturklúbbi. Því má bæta við að þar sem undirritaður er mikill dýravinur þótti honum einstaklega gaman að sjá alla hundana sem saman voru komnir í Hörpu. Þeir hafa eflaust þefað einhver gleðiefni uppi þetta kvöldið.

Morgunblaðið laugardagurinn 15. febrúar 2014

Kiriyama Family

 

 

Skráð af Menningar-Staður