Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.02.2014 06:26

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

.

.

 

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina

 

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstarfsemi á starfssvæði Byggðastofnunar, var afhent í Skaftfelli á Seyðisfirði á laugardag að viðstöddum forseta Íslands og forsetafrú. Að þessu inni hlaut verkefnið Áhöfnin á Húna viðurkenninguna.

Aðstandendur Eyrarrósarinnar eru Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands, en hún var fyrst afhent í janúar 2005 og þvi veitt í tíunda sinn. Þrjú menningarverkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár, Verksmiðjan á Hjalteyri, Skrímslasetrið á Bíldudal og Áhöfnin á Húna.

Dorrit Moussaief forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar og hún afhenti viðurkenninguna í Skaftfelli á Seyðisfirði en Skaftfell hlaut Eyrarrósina á síðasta ári.

Tinna Guðmundsdóttir, forstöðukona Skaftfells – miðstöð myndlistar á Austurlandi, sagði Eyrraósina hafa skipt menningarstofnunina miklu.

Áhöfnin á Húna, sem er samstarfsverkefni tónlistarmanna og Hollvina Húna II, hlaut Eyrarrósina að þessu sinni, en auk viðurkenningarinnar sjálfrar fær hún 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Verksmiðjan og Skrímslasetrið hlutu hvort um sig 300.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands.

Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli í sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins og voru margir tónleikanna í beinni útsendingu í útvarpi, auk þess þem gerðir voru sjónvarpsþættir um verkefnið.

Morgunblaðið mánudagurinn 17. febrúar 2014.

.

.Skráð af Menningar-Staður