Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.02.2014 06:22

Merkir Íslendingar- Louisa Matthíasdóttir

Louisa Matthíasdóttir


Merkir Íslendingar - Louisa Matthíasdóttir

 

Louisa Matthíasdóttir listmálari fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1917. Foreldrar hennar voru Matthías Einarsson yfirlæknir og k.h., Ellen Matthíasdóttir, systir Haralds, föður Matthíasar Johannessen, skálds og fyrrv. Morgunblaðsritstjóra, og afa Haraldar Johannessen Morgunblaðsritstjóra.

Matthías yfirlæknir var sonur Einars Pálssonar, spítalahaldara og verslunarmanns á Akureyri, bróðir Kristínar, húsfreyju á Hraunum í Fljótum, móður Páls Einarssonar, fyrsta borgarstjórans í Reykjavík.

Louisa ólst upp í Höfða sem nú er móttökuhús borgarstjórnar, en þar átti fjölskylda hennar heima til 1938. Louisa gekk í Landakotsskóla, lærði auglýsingateiknun og skreytingarlist í Kaupmannahöfn í þrjú ár, kom heim 1937 en var síðasta millistríðsveturinn við listnám hjá Gromaire í París, samtímis Nínu Tryggvadóttur.

Louisa fór til New York 1942, stundaði myndlistarnám hjá Hoffmann í Greenwich Village, kynntist þar manni sínum, Leland Bell myndlistarmanni, og var búsett í New York eftir það.

Louisa fylkti sér ung í hóp framsækinna myndlistarmanna, varð fljótlega kunn í hópi New York-málara sem kenndir eru við figúratífa málverkið og er í hópi víðfrægustu og virtustu málara þjóðarinnar. Myndefni hennar er áberandi íslenskt og hafði hún sérstak dálæti á íslensku sauðkindinni. Þá málaði hún oft götumyndir frá gömlu Reykjavík, gjarnan niður afhallandi þvergötur á Vesturgötu eða Laugaveg með útsýn til norðurs. Í íslenskum umhverfismyndum hennar nýtur sín sérstaklega hin harða og gagnsæja íslenska birta.

Louisa og Nína sóttu mikið til Erlendar í Unuhúsi eftir Parísarveturinn og kynntust þar m.a. Steini Steinar.

Louisa og Steinn voru góðir vinir og bendir margt til þess að hún hafi verið stóra ástin í lífi hans.

Louisa lést 26. febrúar 2000.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 20. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar


Höfði í Reykjavík.

Listaverkið við Höfða í Reykjavík er - Öndvegissúlur- eftir Eyrbekkinginn Sigurjón Ólafsson.


Skráð af Menningar-Staður