Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.02.2014 06:17

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson.

 

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Egilsson

 

Sveinbjörn Egilsson, rektor og skáld, fæddist 24. febrúar 1791 í Innri-Njarðvík í Gullbringusýslu. Foreldrar hans voru Egill Sveinbjarnarson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík, og k.h. Guðrún Oddsdóttir. Egill var ekki af miklum ættum en var þó efnaður og sendi son sinn í fóstur til Magnúsar Stephensen konferensráðs. Sveinbjörn gekk aldrei í Latínuskólann en lærði hjá Magnúsi og ýmsum öðrum og varð stúdent úr heimaskóla Árna Helgasonar árið 1810.

 

Sveinbjörn komst ekki í háskóla strax vegna ófriðar, en hóf 1814 guðfræðinám við Hafnarháskóla, sem hann lauk árið 1819. Við komu sína aftur til Íslands fékk hann kennarastöðu við Bessastaðaskóla, en þegar skólinn flutti til Reykjavíkur var hann gerður rektor. Hann var því fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Aðalkennslugrein hans var forngríska. Hann var árið 1843 sæmdur doktorsnafnbót í guðfræði af háskólanum í Breslau, en sú borg er nú í Póllandi og heitir Wroclaw. Hann var einn af stofnendum Fornfræðafélagsins og aðalstarfsmaður þess.

Sveinbjörn orti bæði á íslensku og latínu en þekktastur er hann fyrir þýðingar sínar á Ódysseifs- og Ilíonskviðu. Hann þýddi ritið Menón eftir Platón, vann að Biblíuþýðingum og þýddi líka Íslendingasögurnar á latínu.

 

Sveinbjörn var viðriðinn pereatið svokallaða sem var framlag Íslendinga til byltingasögu 19. aldarinnar í Evrópu. Forsagan var sú að hann vildi þröngva skólapiltum til að ganga í bindindisfélag skólans. Þeir gengu þó flestir fljótlega úr félaginu. Sveinbjörn var ósáttur við það og flutti þeim harða skammarræðu í byrjun árs 1850. Skólapiltar brugðust við með því að heimsækja rektor og hrópa pereat, sem þýðir niður með hann! Hann lét ári síðar af störfum.

Sveinbjörn var giftur Helgu Gröndal, dóttur Benedikts Gröndals yfirréttardómara. Meðal barna þeirra var Benedikt Gröndal skáld.

Sveinbjörn lést 17. ágúst 1852

Morgunblaðið mánudagurinn 24. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar.


Skráð af Menningar-Staður