Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.02.2014 06:33

Gisti- og veitingarekstur í Skálholti til útleigu

Skálholt

 

Gisti- og veitingarekstur í Skálholti til útleigu

• Hefur hingað til verið í höndum kirkjunnar

 

Ríkiskaup hafa auglýst, fyrir hönd kirkjuráðs íslensku þjóðkirkjunnar, eftir tilboðum í gisti- og veitingarekstur í Skálholti. Hið leigða er Skálholtsskóli og einbýlishúsin Sel og Rektorhús. Reksturinn hefur hingað til verið í höndum kirkjunnar fyrir utan tvö sumur fyrir mörgum árum þegar sumarhótel var rekið í skólanum.

Gert er ráð fyrir að leigutakinn hefji starfsemi sína eigi síðar en 1. júní næstkomandi. Leitað er að aðilum með skjalfesta reynslu af hliðstæðum rekstri og sem hafa yfir að ráða starfsfólki með reynslu og menntun í framleiðslu og framreiðslu á mat, og þekkingu á og reynslu af vinnu við hótelrekstur og skipulagningu ráðstefna og fundarhalda. Vegna laga um Skálholtsskóla og sérstöðu Skálholts sem kirkju-, helgi- og sögustaðar verða ákvæði í leigusamningi um hlutverk og markmið Skálholtsskóla sem þar er tilgreint, segir í auglýsingunni.

Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, segir að leigutakinn muni ákveða hverskonar starfsemi hann verður með á staðnum en í skilmálum komi fram að hann geri það í samráði við kirkjuráð og vígslubiskup sem eru með forræði yfir staðnum. „Það hefur verið ýmis kirkjuleg starfsemi í Skálholtsskóla, eins og kyrrðardagar, fermingabarnamót og ráðstefnur, og sú starfsemi á að rúmast inni í þessu áfram. Þegar farið verður að semja við leigutaka verða settir ýmsir skilmálar til að hægt sé að sinna kirkjulegu starfi, sem kveðið er á um í lögum, áfram,“ segir Ragnhildur.

Spurð hvort búið sé að taka ákvörðun varðandi framtíð búskapar í Skálholti, en bændurnir í Skálholti bregða fljótlega búi, segir Ragnhildur það ekki vera. 

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 26. febrúar 2014.

 

 

Skráð af Menningar-Staður