Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.02.2014 06:33

Árni Johnsen með upptöku og afmælistónleika

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Árni Johnsen.

 

Árni Johnsen með upptöku og afmælistónleika

• Segir tónleikana haldna í tilefni barnaafmælis hans

 

Árni Johnsen heldur tónleika í Vestmannaeyjum og Kópavogi um mánaðamótin, í tilefni barnaafmælis síns, eins og hann segir sjálfur, en Árni fæddist 1. mars lýðveldisárið 1944 og verður því sjötugur á laugardag.

Fyrst verður síðdegisknall í Kaffi Kró í Vestmannaeyjum á föstudaginn þar sem Árni býður vinum, vandamönnum og samferðamönnum í gúllassúpu til að fagna og þakka fyrir að hafa lifað af svo lengi þrátt fyrir böl og alheimsstríð eins og segir í einu Eyjakvæðinu.

Í Kaffi Kró ætlar Árni að leika og spila fyrir heimafólk í fyrsta sinn 30 mínútna myndband af upptöku Sólarsvítu hans sem var tekin upp af Sinfóníuhljómsveit Úkraínu í Kænugarði í sumar. Svítan er í 14 köflum, sem byggjast á tónum og stefjum úr náttúru Vestmannaeyja.

Um kvöldið verður Árni með Ásakvöld ásamt félögum sínum í Bæjarabandinu í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Ása í Bæ.

Kvöldið áður, á fæðingardegi Ása, verður Bæjarabandið með tónleika í Café Rosenberg í Reykjavík. Í Bæjarabandinu eru auk Árna, Ingi Gunnar Jóhannsson, Georg Kulp og Örvar Aðalsteinsson.

 

40 lög tekin upp

Á laugardagskvöldinu verður Árni síðan með upptöku- og afmælistónleika í Salnum í Kópavogi. Þar leika með honum í hljómsveit Björn Thoroddsen gítarleikari, Magnús Kjartansson píanóleikari, Birgir Níelsen trommuleikari, Úlfar Sigmarsson á nikku og Ingólfur Magnússon á kontrabassa.

Að sögn Árna verður einnig boðið upp á gúllassúpu í Salnum milli 18 og 19.30 og Sólarsvítu-myndbandið verður sýnt fyrir sjálfa upptökuna sem hefst kl. 20. Guðni Ágústsson fylgir tónleikunum úr hlaði og síðan hefst upptakan á um 40 lögum með almennum söng í Salnum. Segir Árni, að um sé að ræða lög frá síðustu áratugum, flest mjög þekkt.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 27. febrúar 2014

 

Guðni Ágústsson og Árni Johnsen á Bryggjuhátíð Hrútavina og vina á Stokkseyrarbryggju.

 

Skráð af Menningar-Staður