Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.02.2014 08:07

Tónleikar til heiðurs Ragnari í Smára haldnir í Hörpu

Eyrbekkingurinn Ragnar Jónsson í Smára frá Mundakoti á Eyrarbakka.

 

Tónleikar til heiðurs Ragnari í Smára haldnir í Hörpu

 

"Ragnar í Smára hafði gríðarlega mikla þýðingu fyrir tónlistarlíf á Íslandi. Hann var fyrst og fremst listunnandi og athafnamaður og hafði þá hugsjón að byggja upp menningarlíf á Íslandi," segir Freyja Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri

 

Tónlistarskólans í Reykjavík. Skólinn og Tónlistarfélagið í Reykjavík standa fyrir hátíðartónleikum í Norðurljósum í Hörpu sunnudaginn 2. mars.

Tónleikarnir eru haldnir til þess að heiðra minningu Ragnars í Smára en 110 ár eru liðin frá fæðingu hans nú í febrúar.

 

Tónlistarskólinn tengist Ragnari sterkum böndum að sögn Freyju og segir hún anda hans svífa yfir skólanum.

 

"Þessi hugsjón hans lifir um að halda uppi hágæða og innihaldsríkri tónlistarmenntun þó spjótin beinist að úr öllum áttum, þó það sé niðurskurður og þó það sé erfitt árferði."

Fréttablaðið fimmtudagurinn 27. febrúar 2014

_____________________________________

Félagsmenn kallaðir postularnir 12

Tónlistarfélagið í Reykjavík á sér merkilega sögu sem hefst árið 1930 en það ár var afar viðburðaríkt í íslensku menningarlífi. Þá hóf Ríkisútvarpið starfsemi, Lúðrasveitin Svanur var stofnuð og Alþingishátíðin haldin á Þingvöllum en á henni lék Hljómsveit Reykjavíkur sem flutti aðallega sígilda tónlist.

Liðsmenn hljómsveitarinnar stofnuðu sama ár Tónlistarskólann í Reykjavík og var Páll Ísólfsson frá Stokkseyri ráðinn skólastjóri. Tveimur árum síðar stefndi rekstur skólans og hljómsveitarinnar í þrot og kom þá til sögunnar Tónlistarfélagið sem tók hvort tveggja að sér. Formaður félagsins var Ragnar Jónsson frá Eyrarbakka (1904-1984), einhver umsvifamesti menningarfrömuður Íslands fyrr og síðar, atvinnurekandi og annar aðaleigenda smjörlíkisgerðarinnar Smára sem hann var jafnan kenndur við.

Tónlistarfélagið aflaði tekna með ýmsum hætti, einkum tónleikahaldi og bíórekstri en einnig bókaútgáfu. Á fimmta áratugnum gaf félagið út Passíusálmana í viðhafnarútgáfu og átti ágóðinn af þeirri útgáfu að renna til byggingar tónlistarhúss í Reykjavík. Í félaginu voru 12 karlar sem jafnan voru nefndir postularnir tólf. „Hér var kominn til sögunnar félagsskapur sem á engan sinn líka í íslenskri menningarsögu og átti eftir að hafa veruleg áhrif á íslenskt tónlistarlíf fram eftir allri 20. öld,“ segir í ágripi sagnfræðingsins Bjarka Bjarnasonar um þennan merkilega félagsskap.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 27. febrúar 2014.

 


Eyrbekkingurinn Ragnar Jónsson í Smára eftir Eyrbekkinginn Sigurjón Ólafsson.Skráð af Menningar-Staður