Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.03.2014 16:06

Hrós kostar ekki krónu

Ingrid Kuhlman

 

Hrós kostar ekki krónu

 

Hrósum í dag - Ingrid Kuhlman hjá Þekkingarmiðlun segir hrós ekki hluta af íslenskri þjóðarsál. Ekki veiti þó af hrósi í samfélaginu um þessar mundir og það kosti ekki neitt. Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag.

 

Ég sendi áminningu á alla alþingismenn um að taka þátt í þessum degi, ekki veitir af," segir Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunarog upphafsmanneskja hrósdagsins á Íslandi en Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag.

Ingrid segir reyndar allt samfélagið hafa gott af meira hrósi því neikvæðni einkenni alla umræðu í dag. Hrós hafi hins vegar ekki verið hluti af íslenskri þjóðarsál en þó horfi til batnaðar.

 

"Gunnar á Hlíðarenda hrósaði engum en við erum að bæta okkur. Maður sér mun milli kynslóða. Eldra fólk kann síður að taka hrósi og dregur um leið úr því: "Æ, þetta var ekkert," og "láttu ekki svona," segir það meðan krakkarnir segja bara: "Já takk ég veit," þegar þeim er hrósað. Ef við kunnum ekki að taka hrósi aukum við ekki líkurnar á að fá aftur hrós. Það er ekkert gaman að hrósa fólki sem hafnar því."

 

Hrósdagurinn var fyrst haldinn í Hollandi fyrir ellefu árum og á vefsíðunni: www.worldcomplimentday.com er að finna upplýsingar um daginn. Ingrid hrinti hrósdeginum á Íslandi af stað fyrir tveimur árum og stofnaði Facebook-síðu kringum hann. Þar setja um 2.500 manns reglulega inn hrós.

 

"Fólk er að hrósa öllu mögulegu, til dæmis þegar það fær góða þjónustu í verslun eða þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast í sveitarfélaginu. Það er mjög gaman að sjá fólk pósta jákvæðum hlutum, sérstaklega núna," segir Ingrid.

"Það verður engin uppákoma tengd deginum í ár heldur er dagurinn vitundarvakning. Auðvitað eigum við að hrósa alla daga ársins en dagurinn í dag á að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að hrósa. Hrós kostar ekki neitt en afraksturinn er mikill. Það veitir mikla gleði og ánægju og

öllum þykir okkur vænt um að fá klapp á bakið."

 

Ingrid er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar sem annast ráðgjöf á ýmsum sviðum fyrir fyrirtæki og heldur námskeið um samskipti og vellíðan á vinnustöðum. Hún segir lítið hrós vandamál á vinnustöðum.

"Það er eitt af því sem kemur í ljós í starfsánægjukönnunum, það vantar viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Því er um að gera að draga það jákvæða fram og segja eitthvað fallegt. Það skiptir miklu máli. Ég vonast til að allir landsmenn taki þátt.

Fréttablaðið laugardagurinn 1. mars 2014


 

Skráð af Menningar-Staður