Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.03.2014 22:07

Hrútavinafélagið Örvar 15 ára - mest lesið nú um stundir á dfs.is

 

Hrútavinafélagið Örvar 15 ára

- mest lesið nú um stundir á dfs.is
 

MEST LESIÐ

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 15 ára

Herkúles vann á skemmtilegu Flóafári í FSu

Bikarslagur á morgun

Markmið sett á hugarflugsfundi

Bingó á Hótel Geysi

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 15 ára

 

Það bar til síðla í september árið 1999 að boð komu frá Bjarkari Snorrasyni, bónda á Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna, að til hrútasýningar væri boðað að Tóftum. Þangað skyldu sauðfjárbændur í hreppnum mæta með hrúta sína til mælinga og dóma hvað þeir gerðu allir með sóma.

Hrútasýningar hafa í gegn um tíðina verið hinar merkilegustu samkomur bæði út frá faglegum atriðum og ekki síður hin besta skemmtan með ýmsum hætti. Svo hefur vissulega verið á Tóftum og samkomurnar hafist með kjötsúpumáltíð að hætti Bjarkars bónda áður en haldið er til fagstarfa í fjárhúsinu. Vegna þessa hafa hrútasýningar að Tóftum verið fjölmennar um langa tíð.

Afdrifarík óvissuferð
Athafna- og félagsmálamaður vestan af fjörðum, Björn Ingi Bjarnason, hafði flutt til Stokkseyrar sumarið 1999 og var svo lánsamur að lenda í slagtogi við sauðfjárbændur í hreppnum. Svo heppilega vildi til að sama dag og hrútasýningin var á Tóftum að til Önfirðingsins komu þrír sveitungar hans í heimsókn. Þetta voru; Árni Benedikttsson, og bræðurnir Ingólfur Björnsson og Siggi Björns. Var strax ákveðið að fara með gestina í óvissuferð á hrútasýninguna. Þoka var yfir öllu og rigningarúði þegar haldið var af stað og gestirnir hlaðnir kvíða yfir því hvað væri í vændum enda höfðu þeir reynt nýbúann á Stokkseyri af ýmsu á fyrri tíð fyrir vestan. Árni býr á Selfossi, Ingólfur í Noregi, Siggi Björns í Berlín í Þýskalandi og Björn Ingi býr á Eyrarbakka

Mikil upplifun
Ekki var að sökum að spyrja að þetta kvöld á Tóftum var mikil upplifun og góð skemmtun fyrir gestina að vestan því enginn þeirra hafði farið á hrútasýningu áður. Þarna var fastmælum bundið að að mæta árið eftir að Tóftum á hrútasýninguna og þá með nokkur skemmtiatriði sem og var gert.

Örvar
Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi var orðið til upp úr þessari óvissuferð að Tóftum haustið 1999. Hrútavinafélagið fagnar því í ár fimmtán ára afmæli og mun það verða gert með ýmsum hætti.

Hrútavinafélagið Örvar hefur komið að og haft frumkvæði til ýmissa mannlífs- og menningarmála á Suðurlandi og víðar. Verður það ekki rakið hér að þessu sinni en aðeins nefnd til Bryggjuhátíðin á Stokkseyri sem félagið  stóð fyrir með aðilum á staðnum og fleirum að koma í framkvæmd  sumarið  2004.

Þjóðlegt
Hrútavinafélagið vinnur í anda þess “Að viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita” og sýna verkin vissulega slíkt á margan hátt. Grunnur félagsins liggur í bændamenningunni í Flóanum og beitingaskúramenningunni fyrir vestan eins og sést á því hvernig félagið varð til.

Félagið hefur fengið góða svörun við starfinu sem sést best á því að samkomur og uppákomur þess eru mjög vel sóttar. Hrútavinafélaginu er gríðarlega kær einstök viðurkenning sem það fékk á samkomu í troðfullu félagsheimilinu Þjórsárveri er Sigurður Sigurðarson f.v. yfirdýralæknir kvaddi sér hljóðs og veitti félaginu heilbrigðisvottorð vegna hins margþætta mannlífs og menningarstarfs Hrútavina.

Þakkir
Hrútavinafélagið hefur frá upphafi átt náið samstarf við “Búnaðarfélagið” í Stokkseyrarhreppi hinum forna sem fagnaði 125 ára afmæli á síðasta ári.

Hrútavinafélagið þakkar sérstaklega Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps samstarfið þessi fimmtán ár og þakkar einnig öðrum sem félagið hefur sömuleiðis átt farsæla samleið með þessi ár.

Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins Örvars

Frá Hrútasýnngu að Tóftum.

Skráð af Menningar-Staður