Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.03.2014 06:22

Síkátur Sunnlendingur 60 ára í dag - 17. mars 2014

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Ísólfur Gylfi Pálmason og frú, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir.

 

Síkátur Sunnlendingur - 60 ára í dag 17. mars 2014

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra – 60 ára

 

Ísólfur Gylfi fæddist í húsi foreldra sinna á Hvolsvelli 17. mars 1954 en þau voru í hópi frumbyggja kauptúnsins: „Mamma ætlaði fyrst að dvelja á Hvolsvelli í þrjá mánuði. En hún verður níræð í haust og hefur átt heima við sömu götuna hér í 72 ár.“

Ísólfur Gylfi var í sveit á sumrin í Hallgeirsey í Landeyjum hjá Jónu Vigdísi Jónsdóttur og Jóni E. Guðjónssyni: „Þau hjónin gerðu heiðarlega tilraun til þess að gera mig að manni og Jón smitaði mig svo af hljómsveitarbakteríunni sem grasserar enn í okkur báðum. Það er að vísu talsverður aldursmunur á okkur vinunum, en tónlistin hefur þann kost að sameina kynslóðirnar.“

 

Synti Guðlaugssundið, 6,1 km

Síðan tók við brúarvinna í flokki Huga Jóhannessonar í fjögur sumur: „Það var dásamlegur tími. Við sváfum í tjöldum og þvoðum okkur áður en farið var á sveitaböllin.“

Ísólfur Gylfi stundaði nám í Hvolsskóla á Hvolsvelli, var hann einn vetur í Núpsskóla í Dýrafirði, því næst í Kennaraskóla Íslands, þá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og loks í Idrætshöjskolen í Sönderborg í Danmörku: „Sundhópurinn Vinir Dóra í Vesturbæjarlauginni þar sem ég er óvirkur meðlimur, og pottavinir í sundlauginni á Hvolsvelli, fullyrða að ég hafi fengið íþróttakennararéttindin í Bréfaskóla SÍS og ASÍ.

Ég vona að ég hafi sannað það í síðustu viku þegar ég synti 6,1 km í Guðlaugssundinu á Hvolsvelli, að prófið er ekta.“

Ísólfur Gylfi kenndi í Grunnskólanum í Ólafsvík, við Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit og við Samvinnuskólann á Bifröst 1981-87. Hann var starfsmannastjóri í KRON og Miklagarði, sveitarstjóri á Hvolsvelli 1990-95, alþingismaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokinn 1995-2003, sveitarstjóri Hrunamannahrepps með aðsetur á Flúðum 2003-2010 en var þá kjörinn í sveitarstjórn Rangárþings eystra og hefur verið sveitarstjóri þar síðan.

Ísólfur Gylfi hefur spilað í hljómsveitum, sungið í kórum, setið í fjölda stjórna, m.a. verið formaður Upplýsingamiðstöðvar Reykjavíkur, var varaformaður Ferðamálaráðs, formaður Orkuráðs og Orkusjóðs og hefur setið í stjórn Íslandspósts. Hann var formaður Vestnorræna ráðsins, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og sat þing Sameinuðu þjóðanna í New York svo eitthvað sé nefnt.

Áhugamál Ísólfs Gylfa snúast um tónlist, útivist, íþróttir og skógrækt, en hann er skógarbóndi í frístundum, ásamt konu sinni, og hefur nýlega snúið sér að hænsnarækt og tekur þátt í varðveislu íslenska landnámshænsnastofnsins.

 

Fjölskylda

Eiginkona Ísólfs Gylfa er Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, f. 8.7. 1957, skógarbóndi, kennari og verkefnastjóri hjá Fræðslunetinu – símenntun á Suðurlandi. Foreldrar hennar: Jóna Birta Óskarsdóttir, f. 16.10. 1934, d. 1.6. 2008, verslunarmaður í Ólafsvík og Reykjavík, og Kolbeinn Ólafsson, f. 7.12. 1934, d. 17.8. 1976, húsgagnasmiður í Reykjavík.

Börn Ísólfs Gylfa og Steinunnar Óskar eru Pálmi Reyr Ísólfsson, f. 8.10. 1979, viðskiptafræðingur en kona hans er Bergrún Björnsdóttir viðskiptafræðingur og dóttir þeirra Kolbrún Myrra Pálmadóttir, f. 2010; Margrét Jóna Ísólfsdóttir, f. 12.9. 1984, viðskiptafræðingur en maður hennar er Þórður Freyr Sigurðsson, viðskiptafræðingur og eru börn þeirra Þórdís Ósk Þórðardóttir, f. 2008, og Þórunn Metta Þórðardóttir, f. 2012; Kolbeinn Ísólfsson, f. 16.4. 1986, vöruhönnuður en kona hans er Berglind Ýr Jónasdóttir, sérfræðingur á flugrekstrarsviði WOW air; Birta Ísólfsdóttir, f. 12.7. 1988, fatahönnuður.

Systur Ísólfs Gylfa eru Guðríður Björk Pálmadóttir, f. 5.3. 1945, sölumaður í Reykjavík; Ingibjörg Pálmadóttir, f. 18.2. 1949, hjúkrunarfræðingur og fyrrv. ráðherra og alþingismaður.

Foreldrar: Ísólfs Gylfa: Pálmi Eyjólfsson, f. 22.7. 1920, d. 12.10. 2005, sýslufulltrúi á Hvolsvelli, og Margrét Jóna Ísleifsdóttir, f. 8.10. 1924, fyrrv. tryggingafulltrúi á Hvolsvelli.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Ísólfur Gylfi Pálmason þegar Hrútavinafélagið Örvar heimsótti hann í byrjun árs 2014.

.

F.v.: Jón Kr. Ólafsson og Ísólfur Gylfi Pálmason þegar Jón Kr. fagnaði 70 ára afmælinu á Hvolsvelli fyrir nokkrum árum.

.

F.v.: Guðríður Pálmadóttir, Jón Kr. Ólafsson og Margrét Ísólfsdóttir.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 17. mars 2014

 

Skráð af Menningar-Staður