Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.03.2014 21:26

Myndverk Gunnars Arnar sýnd í Berlín


Gunnar Örn.

 

Myndverk Gunnars Arnar sýnd í Berlín

Á sýningunni er úrval verka frá níunda áratugnum

 

Í galleríinu Moeller Fine Art í Berlín hefur verið opnuð sýning á verkum eftir myndlistarmanninn Gunnar Örn (1946-2008). Sýning kallast »Þurrlendi« og á henni gefur að líta málverk, teikningar og grafík frá seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar en þá var listamaðurinn í samstarfi við gallerí Achim Moeller í New York, en hann er einnig eigandi gallerísins í Berlín.

 

Í tilkynningu segir að titill sýningarinnar vísi til íslenska landslagsins en verk Gunnars Arnar á þessu tímabili hafi haft sterkar tilvísnir í íslenska náttúru, alþýðuhefðir og þjóðtrú, en verkin séu draumkennd og vísi einnig til fjarlægrar, goðsagnakenndrar fortíðar. Í þessum verkum megi iðulega sjá verur sem eru sambland manna og dýra.

 

Gunar Örn var sjálflærður og varð einn þekktasti listamaður landsins á sinni tíð. Á níunda áratugnum fóru verk hans einnig að vekja athygli erlendis og beitti einn sýningarstjóra Guggenheim-safnsins í New York sér fyrir sýningum á þeim og keypti safnið verk eftir Gunnar. Meðal annarra safna sem eiga verk eftir hann má nefna Seibu-safnið í Tókýó, Moderna Museet og Listasafn Svíþjóðar. Árið 1989 var hann fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum.

 

Ólafur Elíasson myndlistarmaður hefur sagt að Gunnar Örn hafi líklega haft meiri áhrif en nokkur annar á þá ákvörðun sína að verða listamaður. »Hann var minn helsti áhrifavaldur í upphafi ferilsins og í raun var það í gegnum augu hans sem ég þroskaði tilfinningu mína fyrir íslenskri náttúru. Hann var náinn fjölskylduvinur og varð eins og minn annar faðir,« skrifaði Ólafur um Gunnar Örn árið 2009.

 

»Sem málari og skúlptúristi var Gunnar Örn alltaf ein á ferð. Það hafði mikil áhrif á mig hvernig hann fylgdi aldrei tískustraumum: hárnákvæm nálgun hans og hvernig hann þroskaði listræna tjáningu sína snemma á ferlinum hjálpaði mér að meta það að vinna með mikilli dýpt og tilfinninganæmi. Einstakt tungumál sköpunar hans fyllti mig skilningi á því að list er í grunninn samræða milli lífs okkar og heimins sem við lifum í,« skrifaði Ólafur.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 18. mars 2014


Skráð af Menningar-Staður