Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.03.2014 08:17

20. mars 2014 - Vorjafndægur - Einmánuður byrjar 25. mars 2014

 

 20. mars 2014 - Vorjafndægur - Einmánuður byrjar 25. mars 2014

 

Þennan dag eru þrír mánuðir liðnir frá vetrarsólhvörf og þrír mánuðir í sumarsólstöður.

Segja má að dagur og nótt séu jafnlöng en upp frá þessum degi fer birtan að hafa yfirhöndina.

 

Góuþræll verður 24. mars og er síðasti dagur góu. Var í gamansemi að ánafna hann þeim konum sem með einhverjum hætti þóttu hafa gert sig berar að lauslæti.

Áður og fyrr höfðu menn illan bifur á góuþrælnum vegna veðurfars, einkum á Suðurlandi. Annálar á 17. öld minnast oftsinnis á illviðri og mannskaða á góuþræl.

Mjög slæmt þótti að góuþrællinn færi saman við boðunardag Maríu 25. mars enda orti Bólu-Hjálmar:

Vottur er það varla góðs
veðurátt mun kælin
þá boðunarhátíð besta fljóðs
ber á góuþrælinn.

 

Einmánuður er helgaður piltum og harpa stúlkum á sama hátt og húsbændur og húsfreyjur áttu þorra og góu. Fyrsti dagur einmánaðar hefur verið kallaður “yngismannadagur” á síðustu öldum, og áttu stúlkur að fagna honum. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. 

Þessi kviðlingur um einmánuð var allkunnur á Vestfjörðum: 

Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn. 


Til þess að vorið yrði gott þótti þetta besta veðráttan á útmánuðum eins og segir í eftirfarandi kviðlingi: 

Þurr skyldi þorri
þeysin góa
votur einmánuður
þá mun vel vora.