Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.03.2014 07:32

Sögufélags Árnesinga með fræðsluerindi um friðun Þingvalla

 

Sögufélags Árnesinga með fræðsluerindi um friðun Þingvalla

 

Á morgun, þriðjudagskvöldið 25. mars 2014, stendur Sögufélag Árnesinga fyrir fræðslufundi í gestastofunni á Hakinu á Þingvöllum (við útsýnisskífuna þar sem gengið er niður í Almannagjá). Erindið flytur Torfi Stefán Jónsson, sagnfræðingur, og nefnir hann það „Friðun Þingvalla“. Erindið hefst kl. 20. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir og er aðgangur ókeypis.

 

Í erindi sínu ræðir Torfi um efni B.A. ritgerðar sinnar sem fjallaði um aðdragandann að friðun Þingvalla og hvernig menn komust loks að þeirri niðurstöðu að taka land undan ræktun og nýtingu landbúnaðar yfir í friðun svæðis sem eingöngu mátti horfa á. „En hvers vegna er verið að stofna til þessarar friðunar, munu margir spyrja. Eiga ekki mennirnir að lifa á því sem náttúran framleiðir á Þingvallalandi, sem annarsstaðar.“ Spurningar eins og þessar flugu fram í umræðu manna á Alþingi þegar rætt var um fyrirhugaða friðun Þingvalla á þriðja áratug 20. aldar. Hugmyndin um friðun eða stofnun þjóðgarðs á Þingvöllum var enn einn angi á leið Íslands til nútímans. Á sama tíma var byrjað að huga að virkjun vatnsaflsins, lagningu drykkjarvatns til þéttbýlis, uppbyggingu á dreifikerfi síma og fleira mætti til telja. Nú þykir næsta sjálfsagt að Þingvellir séu þjóðgarður en umræðan var löng, ströng og á margan hátt ekki ólík þeirri sem er í dag.

Njörður Sigurðsson, formaður Sögufélags Árnesinga.

 

.

 

Skráð af Menningar-Staður