Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.03.2014 20:58

Merkir Íslendingar - Þórarinn Guðmundsson

Þórarinn Guðmundsson

 

Merkir Íslendingar - Þórarinn Guðmundsson

 

Þórarinn Guðmundsson, tónskáld og fiðluleikari, fæddist á Akranesi 27. mars 1896. Hann var sonur Guðmundar Jakobssonar húsasmíðameistara, byggingarfulltrúa í Reykjavík og fyrsta hafnarvarðar Reykjavíkur, og Þuríðar Þórarinsdóttur húsfreyju. Guðmundur var sonur Jakobs Guðmundssonar, prests að Sauðafelli og Steinunnar D. Guðmundsdóttur.

Þuríður var systir séra Árna á Stóra-Hrauni, dóttir Þórarins Árnasonar jarðyrkjumanns og Ingunnar Magnúsdóttur, alþm. í Syðra-Langholti Andréssonar. Jórunn, amma Þuríðar í föðurætt, var systir Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns. Bróðir Þórarins tónskálds var Eggert Gilfer, síðar þekktur skákmaður.

Þuríður fór með syni sína, Þórarin og Eggert, unga til Kaupmannahafnar og hélt þeim þar heimili meðan þeir lærðu við Tónlistarháskólann. Þaðan lauk Þórarinn prófi í fiðluleik, fyrstur Íslendinga, 1913, og stundaði síðar framhaldsnám í Þýskalandi.

Þórarinn átti eftir að koma mikið við íslenska tónlistarsögu á fyrri helmingi síðustu aldar. Hann kenndi fiðluleik um árabil og hann og Emil Thoroddsen voru fyrstu tónlistarmennirnir sem ráðnir voru til Ríkisútvarpsins við stofnun þess, 1930. Þeir tveir og Þórhallur Árnason sellóleikari urðu síðan fyrsti vísirinn að Útvarpshljómsveitinni sem síðar varð að Sinfóníuhljómsveit Íslands er hún var stofnuð 1950.

Þórarinn var fyrsti stjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar, stofnandi Hljómsveitar Reykjavíkur 1921 og stjórnandi hennar, og einn af stofnendum Félags íslenskra tónlistarmanna 1940 og fyrsti formaður þess.

Þórarinn samdi nær eingöngu sönglög. Sum þeirra urðu feikilega vinsæl og eru fyrir löngu orðin klassísk, s.s Þú ert, Kveðja og Dísa.

Endurminngar Þórarins, Strokið um strengi, skráðar af Ingólfi Kristjánssyni rithöfundi, komu út árið 1966 og lagasafn Þórarins kom út 1996.

Þórarinn lést 25. júlí 1979.

Í fjarlægð eftir Þórarinn Guðmundsson: 
https://www.youtube.com/watch?v=ySGQ3e1GgeI

Morgunblaðið fimmtudagurinn 27. mars 2014 - Merkir Íslendingar

 

Skráðaf Menningar-Staður