Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.03.2014 07:07

Snilldarlausn fyrir lítil samfélög þar sem vantar matvöruverslun

 

Snilldarlausn fyrir lítil samfélög þar sem vantar matvöruverslun

 

Það er ekki aðeins á Íslandi sem byggðaþróun hefur verið óhagstæð fyrir lítil bæjarfélög á landsbyggðinni en þetta er algengt víða um heim. Þessu fylgir oft að enginn fæst til að reka matvöruverslun í litlu samfélögunum því það borgar sig einfaldlega ekki. Nú hefur hugmyndaríkur Englendingur fundið góða lausn á þessum vanda.

 

Peter Fox heitir hugvitsmaðurinn  sem fannst alveg ótækt að í gamla heimabæ hans, Clifton í Derbyshire á Englandi, væri engin matvöruverslun rekin og því fann hann ágæta lausn á vandanum. Hann smíðaði einfaldlega risastóran sjálfsala þar sem helstu nauðsynjavörur eru seldar.

Í sjálfsalanum er hægt að velja á milli 80 vörutegunda, þar á meðal þvottaefni, hársápu, morgunkorn, egg, tannkrem, mjólk og auðvitað te. Sjálfsalanum var komið fyrir við bílastæði bæjarpöbbsins og hefur hann þegar vakið mikla lukku meðal bæjarbúa sem þurfa nú ekki að aka til næsta bæjar til að ná sér í helstu nauðsynjar.

Hægt er að greiða með reiðufé og greiðslukortum og öryggismyndavélar eru við sjálfsalann. Rekstraraðilinn getur síðan fylgst með birgðastöðunni í gegnum tölvu. Bæjarbúar eru ánægðir með tiltækið og verðið sem boðið er upp á að sögn Fox.

Það er kannski ekki úr vegi fyrir fámenn sveitarfélög á Íslandi, þar sem verslunarrekstur hefur gengið erfiðlega, að kanna hvort hagkvæmt sé að setja upp svona sjálfsala.

Af www.pressan.is

 

.

 

Skráð af Menningar-Staður