Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.05.2014 06:27

Sunnlenski sveitadagurinn á Selfossi - búast við þúsundum gesta

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

.

Kalfur_Hviti_Gauti

 

Sunnlenski sveitadagurinn á Selfossi - búast við þúsundum gesta

 

Sunnlenski sveitadagurinn verður haldinn í dag, laugardaginn 3. maí, á Selfossi. Jötunn og Vélaverkstæði Þóris standa saman að deginum en hann verður nú haldinn í sjötta sinn. Dagskráin verður á athafnasvæði fyrirtækjanna tveggja, við Austurveg 69. Svæðið verður opið frá klukkan 12-17. Sýningin hefur verið fjölsótt og í fyrra til að mynda sóttu 7.000 manns sýninguna.

Sunnlenski sveitadagurinn er fjölbreytt fjölskylduhátíð þar sem gestum er boðið að upplifa sveitastemningu og bragða á afurðum bænda.

Undanfarin ár hefur Félag kúabænda heilsteikt naut á staðnum og Félag sauðfjárbænda grillað lambakjöt og nú hafa svínabændur bæst í grillhópinn. „Langar biðraðir myndast við grillin því gestir kunna svo sannarlega að meta grillkjötið,“ segir í tilkynningu. Sunnlenskir bændur fá tækifæri til að kynna, gefa smakk og selja afurðir sínar á sýningarsvæðinu og kennir þar ýmisa grasa, enda stór atvinnugrein á Suðurlandi. Margvíslegt handverk og listmunir af vönduðum toga og í ár verður sýning á íslenskum þjóðbúningum. Að vanda verða sýndar gamlar dráttarvélar og gömul amboð í bland við nýjustu landbúnaðartækin.

Þá verður keppt í baggakasti og glímu og landnámshænur verða sýndar.

 

Hvítur kálfur boðinn upp

Klukkan 14.45 mun Böðvar Pálsson á Búrfelli bjóða upp hvítan kálf sem Guðbjörg Jónsdóttir, bóndi á Læk, ánafnar sýningunni til minningar um mann sinn, Gauta Gunnarsson. Litarhaft kálfsins er fátítt en hann er skjannahvítur og slíkir gripir fáséðir. Ágóðinn af uppboðinu rennur til góðra mála í minningu manns hennar. Að uppboði loknu fer kálfurinn hvíti í Húsdýragarðinn í Reykjavík, en þar starfaði Gauti í nokkur ár sem yfirdýrahirðir uns hann gerðist bóndi að Læk í Flóahreppi. Gauti lést af völdum krabbameins á síðasta ári frá konu og fjórum börnum en fjölskyldan hefur nú brugðið búi.

Morgunblaðið laugardagurinn 3. maí 2014Skráð af Menningar-Staður