Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.05.2014 05:59

Ný bók um HC Andersen

 

Ný bók um HC Andersen

 

Ný ævisaga danska ævintýraskáldsins HC Andersens er komin út og nefnist Hans Christian Andersen – European Witness. Höfundur hennar er hinn breski Paul Binding sem er bókmenntagagnrýnandi og rithöfundur og sérfræðingur í skandinavískum bókmenntum. Hann hefur áður skrifað bækur um rithöfunda eins og IbsenLorca og Robert Louis Stevenson.

Höfundurinn rekur ævi Andersens og rýnir í persónu hans. Andersen ólst upp við mikla fátækt og varð að fara að vinna fyrir sér ellefu ára gamall og flutti að heiman fjórtán ára. Hann þótti afar sérkennilegur maður, var barnalegur að ýmsu leyti og áberandi klaufalegur í framkomu og gat verið einstaklega sjálfhverfur. Frægt varð þegar hann heimsótti Charles Dickens og þóttist ekki skilja að fjölskyldan vildi losna við hann heldur bjó á heimilinu í fimm vikur, en mikil gleði varð meðal Dickens og fjölskyldu þegar skáldið danska kvaddi loks og hélt á braut.

Andersen varð nokkrum sinnum ástfanginn án þess að ástin væri endurgoldin og höfundurinn heldur því fram að hann hafi hræðst kynlíf og verið hreinn sveinn alla ævi. Aðaláhersla höfundar er þó fremur á verk Andersens en persónu hans og ævi og bókinni lýkur ekki með dauða rithöfundarins heldur á umfjöllun um síðustu söguna sem hann lauk við þremur árum fyrir andlát sitt. Þótt ævintýraskáldið góða sé þekktast fyrir ævintýri sem enn lifa góðu lífi þá skrifaði Andersen svo ótal margt fleira, eins og leikrit, skáldsögur, ferðabækur og ljóð. Í þessari nýju bók er sjónum beint að þeim verkum hans sem eru ekki jafn kunn og ævintýrin og fjallað um hlutverk hans og vægi sem evrópskur höfundur.

 

Morgunblaðið sunnudagurinn 4. maí 2014

 

Skráð af Menningar-Staður