Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.05.2014 11:12

Ný fánalög um upprunamerkingar ekki afgreidd á þessu þingi

Oft er flaggað á Eyrarbakka. Ljósm.: Ingvar Magnússon.

 

Ný fánalög um upprunamerkingar ekki afgreidd á þessu þingi

 

Til tíðinda dró í lok marsmánaðar síðastliðnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þegar tillögur um ný fánalög íslenska þjóðfánans voru þar samþykktar. Bændasamtök Íslands sóttust fyrst eftir því árið 2008 að fá að nota íslenska fánann til að auðkenna innlendar landbúnaðarafurðir á markaði. Ekki tókst þó að koma málinu til annarrar umræðu í þingsal á þessu þingi.


Í framhaldsnefndaráliti sem lagt var fram þann 14. maí  kemur fram að nefndin telji að þegar litið sé til þess stutta tíma sem eftir er af yfirstandandi þingi samkvæmt starfsáætlun sé fyrirséð að frumvarpið verði ekki að lögum. Nefndin telur þó að mikill áhugi sé á málinu hjá hagsmunaaðilum, m.a. í ferðaþjónustu og framleiðslugreinum og því mikilvægt að unnið verði áfram að málinu á næstu mánuðum.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, kom fyrir nefndina af hálfu Bændasamtaka Íslands og gaf umsögn. Hann sagði fyrir skemmstu í viðtali við Bændablaðið að í breytingartillögunum sé heimild til til notkunar fánans útvíkkuð nokkuð frá fyrri útgáfum. „Hvað varðar bændur þá eru meginatriðin þau að nota má fánann á afurðir dýra sem hér eru ræktuð, hlunnindaafurðir (s.s. æðardún) og nytjajurtir, bæði villtar og ræktaðar.  Það var okkar upphaflega hugmynd að þetta gilti bara um innlendar matvörur úr innlendum hráefnum sem koma af landinu, en fáninn er auðvitað eign okkar allra svo ég skil vel að fleiri vilji nýta hann.

Með breytingunum má nota merkinguna á sjávarafurðir sem koma úr íslenskri landhelgi.  Til viðbótar má nota hana á matvæli framleidd hérlendis sem hafa verið hér á markaði í að minnsta kosti 30 ár þó hráefnið sé erlent.  Dæmi um það væri til dæmis ORA grænar baunir, Royal búðingur og annað sambærilegt.  Þessar vörur eru framleiddar hér þó að hráefnið sé erlent.

Opnasta heimildin gildir um aðrar vörur (ekki matvörur),  Þar er t.d. átt við aðrar vörur sem eru hannaðar á Íslandi, úr íslensku hráefni, eða framleiddar hérlendis.  Nægilegt er að eitt þessara þriggja skilyrða sé uppfyllt.  Lopapeysa sem er hönnuð á Íslandi, gæti til dæmis fengið merkið þó hún sé ekki úr íslenskri ull og ekki framleidd hér.  Um slíkt eru dæmi.  Að vísu gilda líka lög um að ekki megi blekkja neytendur, en þessir skilmálar eru nokkuð opnir og orka tvímælis. Hugsunin er auðvitað sú að það megi merkja íslenska hönnun, en ég tel að eftirlitsaðilar þurfi að fylgjast vel með því hvernig þessi ákvæði verða nýtt og taka sérstaklega á því að þau séu ekki notuð til að villa um fyrir neytendum.“

Af: www.bbl.is

 

Skráð af Menningar-Staður