Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.05.2014 06:04

Merkir Íslendingar - Steinþór Gestsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Steinþór Gestsson.

 

Merkir Íslendingar - Steinþór Gestsson

 

Steinþór Gestsson alþingismaður fæddist á Hæli í Gnúpverjahreppi 31. maí 1913, sonur Gests Einarssonar bónda á Hæli og k.h. Margrétar Gísladóttur. Systir Gests var Ingigerður, móðir Helgu, móður Ingimundar arkitekts, Einars, fv. forstjóra Sjóvár, og Benedikts hrl., föður Bjarna fjármálaráðherra.

 

Steinþór lauk gagnfræðaprófi frá MA árið 1933 og var bóndi á Hæli 1937-1974. Steinþór sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk sem þingmaður Suðurlands frá 1967-1978 og frá 1979-1983. Þá sat hann í hreppsnefnd Gnúpverjahrepps 1938-1974 og var oddviti hennar í þrjátíu ár. Einnig sat hann m.a. í sýslunefnd Árnessýslu.

Hann gegndi embætti formanns Landssambands hestamannafélaga 1951-1963 og var formaður Vélanefndar ríkisins 1963-1972. Þá sat hann í Þingvallanefnd 1970-1979 og 1980-1984. Einnig sat hann í fleiri nefndum og var m.a. formaður byggingarnefndar þjóðveldisbæjar 1974. Þá sat hann í stjórn Stóðhestastöðvar ríkisins frá 1979 til 1995. Ennfremur sat hann í stjórn Búnaðarfélags Íslands, Framkvæmdastofnunar og Áburðarverksmiðju ríkisins en þar gegndi hann stjórnarformennsku frá 1983. Steinþór var ritstjóri Suðurlands árið 1979 og skrifaði auk þess fjölda rita og greina.

Steinþór var mikilvirkur í stjórnmálum, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi, og starfaði einnig ötullega að félagsmálum. Þá stofnaði Steinþór MA-kvartettinn með skólafélögum sínum. Varð hann vinsælasti söngkvartett síns tíma.

Steinþór var kvæntur Steinunni Matthíasdóttur, f. 8.10. 1912, d. 6.2. 1990. Foreldrar hennar voru Matthías Jónsson, bóndi á Skarði og Fossi í Hreppum, og k.h. Jóhanna Bjarnadóttir. Börn Steinþórs og Steinunnar: Jóhanna, fv. skólastjóri í Gnúpverjahr.; Gestur, fv. skattstjóri; Aðalsteinn, hrossabóndi og tamningamaður; Margrét, bóndi í Háholti, og Sigurður bóndi á Hæli.

Steinþór Gestsson lést 4. september 2005.

Morgunblaðið laugardagurinn 31. maí 2014 - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður