Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.06.2014 06:30

Merkir Íslendingar - Pétur Sigurgeirsson

Pétur Sigurgeirsson


Merkir Íslendingar - Pétur Sigurgeirsson

 

Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, fæddist 2. júní 1919 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Sigurgeir Sigurðsson, f. 3.8. 1890, d. 13.10. 1953, biskup Íslands, og k.h., Guðrún Pétursdóttir, f. 5.10. 1893, d. 20.7. 1979, húsmóðir.

Pétur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940 og lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands árið 1944. Meistaragráðu hlaut hann við Mt. Airy Seminary í Fíladelfíu og nam einnig blaðamennsku, ensku og biblíufræði við Stanford University í Kaliforníu.

Pétur var vígður sem aðstoðarprestur á Akureyri árið 1947 og skipaður sóknarprestur í Akureyrarprestakalli ári síðar. Hann var skipaður vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi árið 1969 og vígður sama ár. Hann tók við embætti biskups Íslands hinn 1. október 1981 og gegndi því til 1989 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Pétur Sigurgeirsson lét víða til sín taka í kirkjulegu starfi og félagsstörfum. Hann var frumkvöðull í æskulýðsstarfi, stofnaði sunnudagaskóla og æskulýðsfélag við Akureyr-arkirkju og var einn af stofnendum Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti. Hann vann að uppbyggingu sumarbúðanna við Vestmannsvatn. Pétur sat í kirkjuráði 1970-1989 og var formaður þess 1981-1989. Hann sat á kirkjuþingi 1972-1989 og var forseti þess frá 1981. Hann var formaður Hins íslenska biblíufélags 1981-1989 og gegndi að auki fjölda trúnaðarstarfa í samfélaginu. Eftir hann liggja bækur, sálmar og fjöldi greina, m.a. barnabókin Litli-Hárlokkur og fleiri sögur, 1952; Grímsey, 1971, og endurminningar hans, Líf og trú, 1997.

Eiginkona Péturs var Sólveig Ásgeirsdóttir, f. 2.8. 1926, d. 27.12. 2013, skrifstofumaður og húsmóðir. Foreldrar hennar voru Ásgeir Ásgeirsson, kaupmaður í Reykjavík, og k.h. Kristín Matthíasdóttir húsmóðir. Pétur og Sólveig eignuðust fjögur börn: Pétur, Guðrúnu, Kristínu og Sólveigu.

Pétur biskup lést 4. júní 2010.

Morgunblaðið mánudagurinn 2. júní 2014 - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður