Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

14.06.2014 05:08

Mörður var ekki endilega illmenni

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Bóksalinn, bókaútgefandinn og rithöfundurinn Bjarni Harðarson á Selfossi gerði sér lítið fyrir og brá sér til Vestur-Afríku, nánar tiltekið til Senegal, og einbeitti sér að ritstörfum. Á nokkrum góðum vikum, innan um líflegt og skemmtilegt fólk í framandi umhverfi, öðlaðist Bjarni innsýn í líf Marðar nokkurs Valgarðssonar, einnar af höfuðpersónum Njálu. Senegal var góður staður til að kynnast Merði.

 

Mörður var ekki endilega illmenni

 

Nöfnin Mörður og Loki tengja margir án umhugsunar við undirferli og lygar vegna þess hvernig þeir eru kynntir í okkar elstu bókmenntum. Hér er vissulega átt við Njálu annars vegar og norrænu goðafræðina hins vegar. Hvort þeir voru raunverulegar persónur eða ekki skiptir kannski ekki höfuðmáli en ljóst er að tengingin við lygar og svik er sterk í hugum margra.

Bjarni Harðarson hefur löngum haft dálæti á fornsögunum og hefur töluvert velt því fyrir sér hvernig sögupersónan Mörður Valgarðsson hefur verið raunverulegur hjá þjóðinni, hvort sem hann var einhvern tíma til eður ei. Mörður var Bjarna það hugleikinn að hann skrifaði bókina Mörður sem nú er komin út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

 

Átök þjóðarbrota

Þegar Bjarni skrifar bækur finnst honum best að vera innan um fólk en ekki einn með sjálfum sér í sumarbústað. Það á ekki við hann. Hann fer því gjarnan til útlanda til að sinna ritstörfum og oftar en ekki á framandi slóðir eins og Senegal hlýtur að vera fyrir Íslending. „Mér finnst mikilvægt að sjá fólk. Þó að ég sé nú öðrum þræði sveitamaður gæti ég illa hugsað mér að setjast að einn í einhverjum sumarbústað og sjá varla nokkra veru. Lönd eins og Senegal eru sérlega góð því þar get ég ekki talað við nokkurn mann, sem er auðvitað ákveðin einsemd, en ég er samt á meðal fólks sem býður mér góðan dag, býr til te handa mér og ég get brosað til,“ útskýrir Bjarni. Spyrja má hvernig það gangi að sjá Fljótshlíðina og söguslóðir Njálu fyrir sér úti í Senegal. Það er nefnilega ekki eins ólíkt og maður skyldi ætla. „Ég held að það sé nokkuð gott að nálgast þessa gömlu veröld á Íslandi út frá þessum dýnamísku löndum þar sem enn eru þessi grimmu átök þjóðarbrota því í mínum huga er enginn vafi á að landnámssamfélagið sem Íslendingasögurnar segja okkur frá er samfélag þjóðarbrota,“ útskýrir hann.

„Það er ekki samfélag einnar heildstæðrar þjóðar, þó svo að þeir sem skrifa Íslendingasögurnar láti á yfirborðinu eins og svo sé. Og svo kemur rómantíski tíminn og gerir enn meira úr því að hér hafi verið eins konar gullaldarsamfélag norrænna konunga. Við sem erum alin upp við þetta könnumst við þá mynd og þetta er mjög heillandi mynd ef við hugsum um að þessir stoltu og frjálsu konungar í Noregi komi hingað og stofni eins konar fyrirmyndarríki.“

Sú mynd sem Bjarni dregur hér upp er að hans sögn sönn upp að vissu marki en ekki megi gleyma því að hér var önnur þjóð fyrir. „Það er auðvitað ekki óumdeilt hvað allt landið varðar en á þessum slóðum er óumdeilt að svo hafi verið. Það sjáum við meðal annars af miðaldaheimildum og fornleifarannsóknum,“ segir Bjarni og minnist um leið á þúsund ára baráttu okkar við að gera okkur gildandi í samnorrænu samfélagi sem kynhrein norræn þjóð. Með því að hugsa um Njálu sem sögu um átök þjóðarbrota er komið áhugavert sjónarhorn á atburðarásina.

 

Sagan á bak við söguna

Upphaflega langaði Bjarna til að skrifa sögu ættar Marðar. Landnámsmennina sem settust að á Einhyrningsstöðum, svonefnda Einhyrninga. „Saga þessara manna, eins og þeir birtast okkur í örfáum orðum í Landnámu og aðeins í Njálu, er mjög mögnuð og einkennist af átökum þessarar norrænu ættar Einhyrninganna, afkomenda Sigmundar rauða, við írskar ættir eins og ætt Gunnars Baugssonar, afa Gunnars á Hlíðarenda, og ég held að Njála sé öðrum þræði að segja okkur frá átökum þjóða. Það sé dulin saga á bak við söguna,“ segir Bjarni, sem heillaðist af ráðgátunni sem hann sá þarna. Þess vegna fór hann að skrifa um Mörð.

„Af hverju gerir maðurinn það sem hann gerir? Af hverju etur hann öllum saman? Hann er valdur að því að Njáll er brenndur inni og að vissu leyti að því að Gunnar á Hlíðarenda er drepinn, en af hverju? Er þetta svona einfalt eins og Njála segir, að hann hafi bara verið illmenni?“

 

Hvorki fantur né fúlmenni

Sjálfur hallast Bjarni að því að Mörður hafi hreint ekki verið illmenni. „Við sjáum það að sá Mörður sem Njála segir frá elskar konuna sína eins og augun í sér og það er ekki sjálfgefið í þessu samfélagi þar sem margir af þessum höfðingjum elskuðu konur sínar ekki meira en svo að þeir héldu frillur á fjölda bæja. Þegar maður fer að fletta ofan af þessu öllu saman, það er að segja samkvæmt minni túlkun, þá er Mörður bara að verja ákveðna hagsmuni og ákveðna þjóð. Hann er að verja yfirstéttina og er í raun varðmaður þessa norræna aðals sem hefur lagt undir sig landið og telur sig eiga það. Við verðum svolítið að sjá Mörð út frá því,“ segir rithöfundurinn og bókaútgefandinn Bjarni Harðarson um nýjasta verk sitt um hinn margræða Mörð Valgarðsson, sem ef til vill hefur verið hafður fyrir rangri sök í túlkun manna gegnum tíðina. Hvernig sem það nú er má sannarlega velta fyrir sér hinum ýmsu hliðum sögunnar og er bók Bjarna býsna gott og vandað verk um þessa eftirminnilegu persónu, Mörð.

 

 

Lesin með opnum huga

Njála er saga sem er afar mörgum Íslendingum kær sem og áhugafólki um Íslendingasögurnar. Flestir sem hana hafa lesið hafa á henni skoðun og sitt sýnist hverjum. Það skemmtilegasta er þó að hana má lesa með nýju hugarfari aftur og aftur. Til dæmis er ekki annað hægt eftir lestur bókar Bjarna um Mörð en að lesa hana með öðru hugarfari.

Morgunblaðið laugardagurinn 14. júní 2014


.

.

 

Skráð af Menningar-Staður