Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.06.2014 12:14

Leyndarmálið í Ölfusinu

Eyrbekkingurinn Gunnar Olsen við hið áberandi kennimark við bæinn Kross í Ölfusi.

Steinninn, sem vegagerðarmenn komu þar fyrir, blasir við þeim sem fara um Suðurlandsveg. Nú er steinninn orðinn hluti af landslaginu og prýði að.  Ljósm.: Morgunblaðið.

 

Leyndarmálið í Ölfusinu

• Klettur á klöpp er minnisvarði vegagerðarmanna

 

„Hálft í hvoru var þessi tilfærsla á steininum prakkaraskapur – en endar kannski með því að verða minnisvarði um sjálfan mig,“ segir Gunnar Olsen á Eyrarbakka, fyrrverandi verkstjóri hjá Vegagerðinni. Á löngum ferli sínum þar kom Gunnar að framkvæmdum víða á Suðurlandi, sem fæstar ef þá nokkur er honum merkt. Og þó; glöggir vegfarendur sem eiga leið austur fyrir fjall hafa sjálfsagt margir tekið eftir stökum steini sem stendur uppi á klapparholti norðan Suðurlandsvegar, við bæinn Kross skammt austan við Hveragerði. Einhverjir ætla líklega sem svo að steininn hafi dagað þarna uppi í þann tíð þegar landið var í mótun. En sú er ekki raunin, þetta eru mannanna verk. Margir vita að sú er raunin en hér er sagan af því öll loksins sögð. Leyndamálið upplýst.

 

Í hálfgerðu brasi

Núverandi Suðurlandsvegur frá Reykjavík til Selfoss var tekinn í notkun haustið 1972. Var hann gerður af starfsmönnum Þórisóss hf., Ístaks og fleiri verktakafyrirtækja sem áberandi voru á þessum tíma. Þegar vegagerðinni sjálfri var lokið tóku starfsmenn Vegagerðarinnar við og sáu um frágang við vegstæðið, svo sem að sá í vegkanta og setja upp ýmis merki og girðingar.

„Þetta hefur sennilega verið árið 1973. Við lentum í hálfgerðu brasi með stein sem var í miðju stæðinu þar sem setja átti upp staura og strengi. Á þessum tíma var lenska í svona framkvæmdum að koma stórum steinum fyrir hér og þar. Því flaug mér í hug að þessum kletti, sem vegur nokkur tonn, væri vel fyrir komið þarna á klöppinni sem blasir við vegfarendum,“ segir Gunnar Olsen og heldur áfram.

„Lúðvík Haraldsson, bóndi á Krossi og landeigandi þarna, gaf leyfi og með það var hafist handa. Óttar Gunnlaugsson frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða kom á Caterpillar D6, heljarstórri ýtu á mælikvarða þess tíma, bifaði þessu áfram og stillti steininn af sem þarna stendur enn.“

 

Bifaðist ekki

Óhætt er að segja að steinninn stóri, þetta áberandi kennimark við hringveginn, sé í öruggum sessi. Upptök jarðskjálftans 29. maí 2008 voru nánast beint þar undir. Bjargið bifaðist ekki, þó svo að hundruð húsa löskuðust eða eyðilegðust, vegir skemmdust og skriður féllu úr fjöllum.

„Það ég best veit fylgdi engin helgi eða sérstök saga steininum í Ölfusinu, sem er nafnlaus,“ segir Gunnar Olsen. Vísar þar til þess að við vegagerð og skyldar framkvæmdir má ekki raska helgum blettum og stundum þarf að ná samkomulagi við álfa og huldufólk. Má þar nefna að árið 1999, þegar Vesturlandsvegur við Grafarholt í Reykjavík var breikkaður, þótti nauðsynlegt að fara varlega þegar svonefndur Grásteinn var færður til, enda til sagnir um meintar álfabyggðir í honum. Var þá vísað til ýmissa óhappa sem orðið hefðu þegar vegurinn var lagður um 1970. Margar samtóna sögur eru til sem margir taka alvarlega en aðrir telja hindurvitni.

 

Lítið ævintýri

„Í girðingarvinnunni í Ölfusinu, sunnan við Ingólfsfjallið, þurftum við að þrasa við fjölda fólks sem var með allt á hreinu. Rifjuðu margir upp þjóðsöguna um Sængurkonustein og þarna átti nánast annar hver klettur að vera sá. Sængurkonusteinn er hins vegar samkvæmt heimildum talsvert norðar og austar,“ segir Gunnar, sem minnist tilfærslu klettsins við Kross sem ofurlítils ævintýris á ferli sínum hjá Vegagerðinni. Þar starfaði hann í rúmlega þrjátíu ár.
 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 18. júní 2014

 


Gunnar Olsen og Siggeir Ingólfsson.

Skráð af Menningar-Staður