Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.06.2014 06:15

Ásta framkvæmdastjóri Árborgar næstu fjögur árin

alt

Ásta Stefánsdóttitr.Ásta framkvæmdastjóri Árborgar næstu fjögur árin

 

Á fundi bæjarstjórnar Árborgar þann 18. júní sl. var samþykkt með 5 atkvæðum Sjálfstæðismanna að ráða Ástu Stefánsdóttur sem framkvæmdastjóra sveitarfélagsins kjörtímabilið 2014–2018. Bæjarráði var falið að ganga frá ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra

 

Á fundinum lagði Helgi S. Haraldsson, B-lista, fram eftirfarandi fyrirspurn: 
Hyggst bæjarfulltrúi, Ásta Stefánsdóttir, þiggja tvöföld laun hjá sveitarfélaginu, bæði sem bæjarfulltrúi og sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins?

Ásta svaraði fyrirspurninni eftirfarandi þegar Dagskráin leitaði svars: 
"Samkvæmt 32. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarstjórn skylt að ákveða sveitarstjórnarmönnum hæfilega þóknun fyrir störf þeirra og samkvæmt sama ákvæði má sveitarstjórnarmaður ekki afsala sér greiðslum sem honum eru ákveðnar á grundvelli þessarar greinar. Samskonar ákvæði er í samþykktum um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar. Venjan hefur verið sú að bæjarfulltrúar sem einnig hafa verið ráðnir til starfa hjá sveitarfélaginu hafa þegið þóknun fyrir bæjarfulltrúastarfið, einnig í tíð eldri laga sem ekki höfðu að geyma jafn fortakslaust ákvæði. Ég mun því þiggja þóknun fyrir störf mín sem bæjarfulltrúi. Sveitarfélagið mun því greiða níu bæjarfulltrúum þóknun fyrir sín störf, líkt og verið hefur. Líkt og með aðra kjörna fulltrúa þá gegni ég ákveðnum skyldum bæði gagnvart stjórnsýslu sveitarfélagsins og gagnvart kjósendum. Ég á von á því að fljótlega verði gengið frá ráðningarsamningi við mig þar sem ákveðin verða laun fyrir framkvæmdastjórastarfið."

Eggert Valur Guðmundsson og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lögu fram eftirfarandi bókun:
Undirrituð ítreka þá skoðun sína að starfsheiti æðsta embættismanns sveitarfélagsins eigi að vera bæjarstjóri en ekki framkvæmdastjóri eins og tíðkast í öllum öðrum sveitarfélögum á Íslandi af sambærilegri stærð. Það verður að teljast afar athyglisvert í ljósi þess að meirihluti þeirra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem leggja þessa tillögu fram nú, fannst ástæða til þess á fyrsta fundi síðasta kjörtímabils að leggja til breytingu á samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins [með] eftirfarandi tillögu: „Lagt er til að 64. grein hljóði svo:  Bæjarstjórn ræður framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Ekki er heimilt að ráða starfandi bæjarfulltrúa í starf framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við hann þar sem m.a. skal kveðið á um ráðningartíma, kaup og kjör. Ráðningartími skal staðfestur af bæjarráði“. Þessi tillaga var lögð fram fyrir sléttum fjórum árum af bæjarfulltrúum D- lista þeim Eyþóri Arnalds, Gunnari Egilssyni, Ara Thorarensen, Söndru Dís Hafþórsdóttur og Elfu Dögg Þórðardóttur. Það er því augljóst að afstaða meirihluta þeirra sem leggja nú til að starfandi bæjarfulltrúi verði ráðinn í starf framkvæmdastjóra hefur farið í heilan hring á ekki lengri tíma en raun ber vitni. Undirrituð sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar. 

 

Af www.dfs.is

 

D-listinn í Sveitarfélaginu Árborg vann glæsilegan sigur í kosningunum þann 31. maí 2014 og snéri við öllum skoðanakönnunum. Í þakkarávarpi til kjósenda er boðað að vinna áfram að bættum hag allra íbúa.

Skráð af Menningar-Staður