Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.06.2014 05:44

Hugleiðingar og hughreystingar

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Hugleiðingar og hughreystingar

• Lítið ljós nefnist nýútkominn kærleiksdiskur Labba

 

„Þessa plötu tileinka ég dótturdóttur minni, Jónu Isis Oliviu, en hún lifði aðeins einn dag. Hún fæddist í London 25. mars 1999 en var jarðsett hér heima. Lagið samdi ég í minningu hennar,“ segir Ólafur Þórarinsson, betur þekktur sem Labbi, í bæklingi sem fylgir nýútkomnum kærleiksdiski hans, Lítið ljós, í texta við fyrsta lag disksins sem diskurinn dregur nafn sitt af. Á diskinum, sem gefinn er út af Zonet, má finna fjölda minningarlaga sem fólk hefur beðið Labba að semja um látna ættingja og vini og lög sem hann hefur samið til minningar um eigin ástvini, auk annarra laga, m.a. lag við bænina Faðir vor.

Labbi segist með diskinum vilja efla kærleik hjá fólki. „Þegar maður setur sig inn í þessi mál sem lögin fjalla um verður kærleikurinn ríkari hjá manni og maður fer að hugsa meira til annarra, þeirra sem hafa misst og þurfa á stuðningi að halda,“ segir hann.

Lögin á diskinum spanna langt tímabil, yfir tuttugu ár eru liðin frá því Labbi samdi það elsta, „Engin orð“, til minningar um fjögur ungmenni sem létust í bílslysi 16. september 1988. Slysið varð skammt frá félagsheimilinu Árnesi þar sem Labbi var að leika fyrir dansi með hljómsveit sinni Karma. Lagið kom út á plötu Labba, Leikur að vonum, árið 1999. „Það var einn aðstandandi þar sem bað mig eftir þetta atvik að semja lag og það var fyrsta kveikjan að þessu. Svo urðu nokkur fleiri slík tilfelli, bæði að ég væri beðinn um að semja lög og eins lög sem urðu til þegar ég sá að þetta gaf fólki talsvert, að maður sinnti þessum málum,“ segir Labbi.

-Spurðist það þá út að þú semdir minningarlög?

„Ég gaf þetta lag nú út á diski fljótlega og það fékk hljómgrunn. En ég veit svo sem ekki hvort það er endilega út frá því eða einhverju öðru sem fólk biður mig um þetta, ég átta mig ekki alveg á því.“

 

Ákaflega krefjandi

-Hvernig er að semja tónlist út frá slíkum sorgarviðburði, andláti?

„Það er ákaflega krefjandi því maður dansar svolítið á línunni. Ég reyni að persónugera textana ekki, þannig að það geta raunverulega allir hlustað á þetta sem tónlist líka. Þetta eru meira hugleiðingar og hughreystingar, maður reynir að sjá ljósglætu í sorginni. Þetta er mjög gefandi ef það heppnast vel og kannski ekki svo ósvipað öðrum lagasmíðum en talsvert viðkvæmara og hjartnæmara verkefni, það verður að segjast eins og er,“ segir Labbi.

-Er eitthvert lag á diskinum sem var erfiðara að semja en önnur?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Ég er lengi að semja svona lög, dálítið lengi með þau í meðhöndlun og yfirfer lög og texta endalaust. En það má geta þess að það er eitt lag eftir móður mína, ekki minningarlag heldur lag sem hún samdi við gamalt ljóð, „Vöggubarnsins mál“, sem var einna erfiðast í útsetningu. Ég útsetti lögin öll sjálfur fyrir strengjasveitir, kóra og allt saman. Það er mjög einfalt lag en það var mjög erfitt að láta einfaldleikann halda sér í því. Ég kunni bara laglínuna þannig að það var einna mesti höfuðverkurinn, útsetningin á því. Ég tók ansi langan tíma í þetta og það liggur gríðarleg vinna að baki plötunni,“ segir Labbi.

„Ég átti grunn að lögunum sem ég hafði búið til hverju sinni, þegar viðkomandi bað mig að semja þau, þannig að að því leyti til spannar þetta 20 ár en svo er svona tveggja ára ferli frá því að ég dembdi mér í að klára lögin og endurspila megnið af þeim, syngja og svoleiðis,“ segir Labbi, spurður út í hversu langt ferli búi að baki plötunni sem tekin var upp í hljóðveri Labba og sonar hans Bassa, Tónverki á Selfossi. Bassi er einn fjölda tónlistarmanna sem leika á plötunni og um söng sjá, auk Labba, dóttir hans Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og Gissur Páll Gissurarson og fjöldi bakraddasöngvara.

Spurður að því hvort útgáfutónleikar verði haldnir á næstunni segir Labbi að hann stefni að því að halda kærleikstónleika í Selfosskirkju í haust.

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Labbi - Ólafur Þórarinsson.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 28. júní 2014
 

Skráð af Menningar-Staður