Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.06.2014 06:49

Safn um ís­lenskt for­ystu­fé er eitt sinn­ar teg­und­ar

Daní­el Pét­ur Han­sen ásamt Al­dísi Gunn­ars­dótt­ur, sum­ar­starfs­manni set­urs­ins og Bryn­hildi Óla­dótt­ur sókn­ar­presti við opn­un safns­ins. mbl.is/?Lín­ey Sig­urðardótt­ir.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Forystufé.

Á jarðhæð hússins er sýningarsalurinn. Annar sauðurinn er frá Ytra-Álandi í Þistilfirði en hinn er frá Brúnastöðum í Flóa (il hægri á myndinni) er gjöf frá Hrútavinafélaginum Örvari á Suðurlandi.

 

Safn um ís­lenskt for­ystu­fé er eitt sinn­ar teg­und­ar

• Fræðasetur um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði

 

Fræðasetur um forystufé var opnað á laugardaginn 28. júní 2014 í gamla samkomuhúsinu á Svalbarði í Þistilfirði eftir fjögurra ára undirbúning. Margt góðra gesta var á svæðinu, velunnarar og áhugafólk, og veðrið skartaði sínu fegursta.

Hugmyndina að setrinu fékk Daníel Pétur Hansen, skólastjóri Svalbarðsskóla, árið 2010 og er hann aðalhvatamaður að stofnun þess, en safnið er það eina sinnar tegundar í heiminum. Strax var ákveðið að vanda til verks og hafa allt fyrsta flokks frá byrjun, enda er íslenskt forystufé einstakt í heiminum og á aðeins skilið það besta. Vanir hönnuðir voru fengnir í verkið, þeir Þórarinn Blöndal og Finnur Arnar Arnarsson, en þeir komu með frumhugmynd að uppbyggingu setursins og unnu síðan út frá henni í samráði við Daníel.

Gamla samkomuhúsið var áður miðstöð menningarlífs íbúa Þistilfjarðar og sómir sér því vel sem umgjörð um forystufé, en Svalbarðshreppur gaf Fræðasetrinu húsið undir starfsemina. Á jarðhæð hússins er sýningarsalurinn með ýmsum fróðleik og uppstoppuðu forystufé og einnig gallerí með íslensku handverki, sem allt tengist íslensku forystufé á einhvern hátt, hvort sem er úr ull, beini, hornum eða silfri. Ullarvörurnar eru eingöngu úr ull af forystufé enda er forystukindin með sérstaklega mjúka og hlýja ull.

Í kjallaranum er lítið kaffihús sem nefnt var Sillukaffi. Nafnið er táknrænt fyrir konur fyrri kynslóða í sveitinni, en það vísar til Sigríðar heitinnar frá Gunnarsstöðum sem ávallt var kölluð Silla. Kaffihúsið verður opið í allt sumar og á boðstólum er sérbakað meðlæti og sérblandað forystukaffi sem kallað er Ærblanda.

 

Ratvísar og greindar

Ætlunin er að safna með tímanum ýmsu efni bæði um Þistilfirðinga og eftir þá og hafa í kaffihúsinu, s.s. bækur og slíkt. Sýning á vatnslitamyndum Ástþórs Jóhannssonar verður í Fræðasetrinu í sumar og búið er að panta sýningarpláss næstu tvö árin. Verk Ólafar Nordal verða til sýnis næsta sumar og sumarið 2016 mun Þórarinn Blöndal vera þar með sýningu, allt verður það tengt forystufé.

Íslenskt forystufé er einstakt og á ekki sinn líka í heiminum. Í kynningu Fræðasetursins segir að fjöldi forystukinda í heiminum sé um 1.400 og allar eigi þær uppruna sinn í Norður-Þingeyjarsýslu. Eiginleikar forystukinda eru einstakir; þær eru ratvísar, áræðnar og greindar og leiða fjárhópinn og forða honum frá hættum. Þær eru veðurglöggar, en sá eiginleiki var einkum mikils virði fyrr á öldum þegar vetrarbeit var nauðsynleg og beitt út á Guð og gaddinn en engar voru veðurspárnar. Áhugi bænda á að fjölga hreinræktuðu forystufé hefur aukist á síðustu árum, en í byggðarlaginu er að finna forystufé á flestum bæjum.

Mikil vinna hefur verið að koma safninu upp, sagði Daníel Hansen, en margir hafa lagt verkefninu lið bæði með styrkjum og vinnuframlagi. Afraksturinn er vandað og afar sérstakt safn sem eflaust á eftir að draga til sín marga gesti. Framtíðardraumurinn er að safna öllu efni og fróðleik sem finnst um íslenskt forystufé, sagði forstöðumaðurinn Daníel Hansen í lok vel heppnaðs dags á Fræðasetrinu.

Morgunblaðið mánudagurinn 30. júní 2014

Gorbi Hrútavinafélagsins Örvars er á Forystufjársetrinu. Hér er mynd frá kveðjustrundinni á Stað á Eyrarbakka.

F.v.: Þórarinn Blöndal, Björn Ingi Bjarnason, Siggeir Ingólfsson og Rúnar Eiríksson.

.

.


Skráð af Menningar-Staður