Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.07.2014 07:28

Merkir Íslendingar - Sesselja Sigmundsdóttir

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sesselja Sigmundsdóttir.

 

Merkir Íslendingar - Sesselja Sigmundsdóttir

 

Sesselja Sigmundsdóttir, stofnandi Sólheima í Grímsnesi, fæddist 5. júlí 1902. Hún var dóttir Sigmundar Sveinssonar, bónda á Brúsastöðum, gestgjafa í Valhöll á Þingvöllum og húsvarðar við Miðbæjarskólann, ogKristínar Símonardóttur húsmóður.

Lífsstarf Sesselju var samfelld hugjónabarátta sem bar vott um mikla fórnfýsi, dugnað og kjark. Ung ákvað hún að helga starfskrafta sína veikum og umkomulausum börnum. Með það í huga stundaði hún nám í uppeldisfræði og barnahjúkrun í Þýskalandi og Sviss.

Sesselja stofnaði barnaheimili að Sólheimum á afmælisdaginn sinn árið 1930. Heimilið var sumarbúðir sem samanstóðu af nokkrum tjöldum. Nú eru Sólheimar rúmlega hundrað manna vistvænt byggðarhverfi fatlaðra einstaklinga og ófatlaðra þar sem starfrækt eru sjálfstæð fyrirtæki, vinnustofur og þjónustumiðstöð fyrir íbúana.

Sesselja var auk þessa merkilegur frumkvöðull á sviði lífrænnar ræktunar á Norðurlöndum og hún hefur oft verið nefnd fyrsti íslenski umhverfissinninn.

Eiginmaður Sesselju var Þjóðverjinn Rudolf Richard Walter Noah. Hann var tónlistarmaður og kennari og kom til landsins 1935. Hann varð hægri hönd Sesselju í starfi hennar en var handtekinn af breska hernum 1940 og fékk ekki leyfi til að koma aftur til Íslands fyrr en 1949. Það sama ár gengu þau í hjónaband. Þá hafði níu ára fjarvera markað sín spor, hann vildi að þau flyttust út þar sem þau fengju betri skilning á því sem þau væru að gera en Sesselja vildi ekki yfirgefa ævistarf sitt. Hann fór af landi brott 1953, þau sáust ekki aftur en skildu ekki formlega og skrifuðust á þar til hann lést 1967.

Sesselja ættleiddi tvö börn, Hólmfríði Sigmunds, f. 1932, og Elfar Björn Sigmundsson, f. 1943, og ól upp 14 fósturbörn.

Árið 1990 kom út bókin Mér leggst eitthvað til – Saga Sesselju Sigmundsdóttur og Sólheima, eftir Jónínu Michaelsdóttur.

Sesselja lést 8. nóvember 1974.

Morgunblaðið laugardaginn 5. júlí 2014 - Merkir Íslendingar.

4c58ceaf8291381ff8e9a19b134e7b4f.jpg - 39.65 Kb

.

.

Skráða f Menningar-Staður