Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.07.2014 10:11

"Kraftmikið og dramatískt verk"

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari leika verk eftir Shostakovitsj, Bach og Bill Evans í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga í kvöld.

 

„Kraftmikið og dramatískt verk“

• Næstu tónleikar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld - 8. júlí 2014

 

Frá austri til vesturs er yfirskrift tónleika sem fram fara í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld kl. 20.30. Þar flytja Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari Sónötu ópus 134 eftir Dmitri Shostakovitsj og Peace Piece eftir Bill Evans í útsetningu Hjartar Ingva Jóhannssonar fyrir fiðlu og píanó, auk þess sem Ingrid leikur fjóra kafla úr Partítu II BWV 1004 fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach.

 

Fyrsta dúótónleikarnir

„Þetta er í fyrsta sinn sem við höldum dúótónleika saman en við Bjarni erum búin að þekkjast lengi. Við vorum á sama tíma í Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins sem krakkar og á svipuðum tíma í Listaháskóla Íslands áður en leiðir skildu,“ segir Ingrid Karlsdóttir, sem sjálf stundaði framhaldsnám í tónlist við Oberlin Conservatory í Ohio og útskrifaðist 2007. Bjarni hefur frá 2011 stundað nám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskóla Hanns Eisler í Berlín.

Að sögn Ingrid hefur hana lengi dreymt um að leika ofangreint Shostakovitsj-verk. „Ég er mikill aðdáandi Shostakovitsj og hef lengi verið. Þetta tiltekna verk er mjög kraftmikið og dramatískt.“ Af öðrum verkum tónleikanna segir Ingrid að það hafi hentað vel með Shostakovitsj að spila Bach. „Sónötur Bach, sem eru sex talsins, eru eins og biblía fiðluleikarans, enda er maður alltaf að æfa þær. Lokaverk tónleikanna er útsetning Hjartar Ingva á lagi eftir djasspíanistann Bill Evans. Þetta lag er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrst ég spila ekki á píanó og get ekki sjálf leikið það í upprunalegri mynd er gaman að fá tækifæri til að spila útsetningu lagsins fyrir píanó og fiðlu.“

 

Samstarf

Ingrid og Bjarni frumfluttu efni kvöldins á tónleikum í Reykjahlíðarkirkju um nýliðna helgi við góðar viðtökur. Aðspurð segir Ingrid það mikinn lúxus að fá tækifæri til að endurtaka efnið. „Yfirleitt gefst bara tækifæri til að flytja það einu sinni. Það er líka gaman að laga sig að ólíkum tónleikarýmum. Hér í Sigurjónssafni er frábær hljómburður og við hlökkum því mikið til kvöldsins.“

Spurð hvort framhald sé fyrirhugað á samstarfi þeirra Bjarna segir Ingrid það vissulega koma til greina. „En hann er búsettur í Berlín og ég verð meira á Íslandi frá og með haustinu, þar sem ég er að fara spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands,“ segir Ingrid, sem verið hefur með annan fótinn í Amsterdam síðustu misseri milli þess sem hún hefur ferðast um heiminn og leikið á tónleikum með hljómsveitinni Sigur Rós.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 8. júlí 2014.

 

Listasafn Sigurjons Ólafssonar

Sigurjón Ólafsson frá Eyrarbakka

 

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fæddist á Eyrarbakka 21. október 1908, sonur Ólafs J. Árnasonar, verkamanns í Einarshöfn á Eyrarbakka, og Guðrúnar Gísladóttur. Hann var bróðir Guðna apótekara í Reykjavík og Gísla bakarameistara, föður Erlings leikara, föður Benedikts, leikara, leikstjóra og leikritahöfundar.

Fyrri kona Sigurjóns var Tove Ólafsson myndhöggvari en seinni og eftirlifandi kona hans er Inga Birgitta Spur sem hafði veg og vanda af listasafni hans í Laugarnesinu.

Sigurjón lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1927, stundaði nám hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara, nám í höggmyndalist hjá prófessor E. Utzon-Frank við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1928-35 og dvaldi við nám í Róm. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn 1928-46 en síðan á Laugarnestanga við Reykjavík.

Sigurjón var í hópi brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi og er meðal virtustu myndhöggvara þjóðarinnar. Standmyndir og veggskreytingar eftir hann má víða sjá í Reykjavík, s.s. líkön af Friðriki Friðrikssyni, Héðni Valdimarssyni og Ólafi Thors. Þá gerði hann brjóstmyndir af séra Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Af öðrum verkum hans sem prýða höfuðborgina má nefna Klyfjahest sem fyrst var fyrir ofan Hlemm og síðar milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar; Öndvegissúlurnar sem settar voru upp við Höfða, og minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 sem sett var upp við Hagatorg, að ógleymdri veggmynd á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar. Hann gerði auk þess um tvö hundruð mannamyndir af ýmsum þekktum Íslendingum.

Sigurjón var sæmdur heiðurspeningi úr gulli af Listaháskólanum í Kaupmannahöfn og sæmdur hinum virta heiðurspeningi Eckersbergs. Verk hans er að finna á virtum listasöfnum víða um heim.

Sigurjón lést 20. desember 1982 og hvílir í kirkjugarðinum á Eyrarbakka

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

21. október 1988

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara í Laugarnesi var opnað, en þennan dag hefði hann orðið áttræður. 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari frá Eyrarbakka.

Skráð af Menningar-Staður