Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.07.2014 06:13

Merkir Íslendingar - Kristján Albertsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Kristján Albertsson

 

Merkir Íslendingar - Kristján Albertsson

 

Kristján Albertsson fæddist á Akranesi 9. júlí 1897. Foreldrar hans voru Albert Þórðarson, síðast aðalbókari Landsbanka Íslands, og kona hans, Steinunn Kristjánsdóttir, systir Margrétar Þorbjargar, eiginkonu Thors Jensen og móður Ólafs Thors forsætisráðherra.

Kristján lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Hann var í námi í bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla 1917-21 og í Þýskalandi og Frakklandi 1921-24.

Hann var í hópi helstu andans manna og menningarrýna hér á landi fyrir síðari heimsstyrjöld, einn skarpasti pólitíski penni hægrimanna á Íslandi, ritfær, víðsýnn og fjölfróður, og lenti þá oft í hörðum ritdeilum við góðvini sína á skáldabekk vinstrimanna, s.s. Þórberg Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness. Kristján samdi frægasta ritdóm á íslensku, fyrr og síðar, um Vefarann mikla frá Kasmír, en sá ritdómur hefst á þessa leið: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára!“

Kristján var ritstjóri Varðar, þá útbreytts, borgaralegs tímarits um landsmál, 1924-27, leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1924-27 og formaður Leikfélagsins 1925-26, einn af ritstjórum Vöku 1927-29, dvaldist í Frakklandi á árunum 1928-31 en í Reykjavík 1931-35. Hann var lektor í íslensku í Berlínarháskóla 1935-43, var sendiráðsritari í íslenska sendiráðinu í París 1946-50 og sendiráðunautur 1950-67. Kristján sat í menntamálaráði 1933-36 og var formaður þess 1933-34 og sat í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1951-55 og 1959-62.

Kristján samdi fjölda rita, meðal annars ævisögu Hannesar Hafstein, og kom töluvert að útgáfumálum. Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála, skráði æviminningar Kristjáns, sem komu út í bókinni Kristján Albertsson – Margs er að minnast.

Kristján lést 31.1. 1989.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 9. júlí 2014 - Merkir Íslendingar Kristján Albertsson


Hannes Hafstein.
Kristján Albertsson skráði ævisögu Hannesar.


 

Skráð af Menningar-Staður