Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

11.07.2014 08:02

Unnið að friðlýsingu Þingvallabæjarins

.

.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Unnið að friðlýsingu Þingvallabæjarins

• Húsið sagt endurspegla fegurð og anda íslenska torfbæjarins

 

„Það er ekki hægt að ímynda sér Þingvelli án Þingvallabæjarins,“ sagði Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands. „Þetta hús er veigamikill þáttur í þeirri mynd sem þjóðin gerir sér af Þingvöllum.“ Nú stendur til að friðlýsa Þingvallabæinn sem var byggður í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930. Eyrbekkingurinn Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið sem prestsbústað.

„Þetta er sennilega kunnasta og merkasta dæmið um tilraunir Guðjóns Samúelssonar til að endurskapa anda og fegurð íslenska torfbæjarins,“ sagði Pétur.

Guðjón gerði teikningar að fleiri húsum í torfbæjarstíl, m.a. í Reykholti og víðar. Fæst þeirra voru byggð, eftir því sem best er vitað. Einhver þeirra sem byggð voru er búið að rífa. Í fyrstu var torfþak á Þingvallabænum. Þökin voru of brött fyrir torfið og engar vegghleðslur til hliðanna sem héldu við það. Það tolldi því illa á þökunum og voru þökin fljótlega klædd með eir.

 

Lykilhús í byggingarsögunni

Þingvallabærinn er eiginlega það eina sem ekki hefur þegar verið friðlýst í þjóðgarðinum. Pétur sagði að tillagan að friðlýsingunni væri ekki til komin vegna þess að húsið væri talið í hættu, húsið væri í ágætu standi. Ástæðan væri önnur.

„Þingvallahúsið hefur algjöra sérstöðu. Segja má að það sé að mörgu leyti einstakt og lykilhús í íslenskri byggingarsögu,“ sagði Pétur. Hann sagði að Þingvallabærinn og Þingvallakirkja mynduðu listræna heild í stórbrotnu og náttúrulegu umhverfi. Þingvallabærinn væri að mörgu leyti besti fulltrúi steinsteyptra húsa í burstabæjarstíl og táknmynd einstaks skeiðs í byggingarsögu okkar, að mati Péturs. Auk þess hefði húsið sérstakt gildi vegna staðsetningar sinnar.

Upphaflega var Þingvallabærinn með þrjár burstir. Tvær burstir til viðbótar voru byggðar við bæinn fyrir lýðveldishátíðina 1974. Pétur sagði að viðbyggingin væri merk út af fyrir sig, bæði vegna tilefnisins og eins vegna þess hve vel hún félli að eldri hluta hússins.

„Segja má að þessari tilraun um þjóðernisrómantíska byggingarstílinn hafi eiginlega lokið um 1930 með Þingvallabænum og byggingu Laugarvatnsskóla. Eftir það fór fúnksjónalisminn að festa rætur hér. Á sama tíma hætti embætti húsameistara að teikna hús í þessum stíl,“ sagði Pétur. Hugmyndir eru uppi um að laga húsið að innan og færa seinni tíma breytingar nær upprunalegum stíl.

 

Bústaður forsætisráðherra

Friðlýsingarferli Þingvallabæjarins er hafið. Minjastofnun Íslands lagði til að húsið yrði friðlýst í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins á þessu ári. Húsafriðunarnefnd mælti með friðlýsingu Þingvallabæjarins.

Næsta skref er að Minjastofnun kynnir málið fyrir öllum sem hagsmuna eiga að gæta varðandi friðlýsingu. Þeir fá sex vikna frest til að gera athugasemdir. Berist athugasemdir er tekin afstaða til þeirra. Síðan verður málið sent forsætisráðuneytinu til endanlegrar ákvörðunar. Forsætisráðherra fer með friðlýsingarvaldið. Þingvallabærinn er nú opinber sumardvalarstaður forsætisráðherra.

Morgunblaðið föstudagurinn 11. júlí 2014


.

.

Eyrbekkingurinn Guðjón Samúelsson.

Skráð af Menningar-Staður