Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.07.2014 07:13

Lífið er saltfiskur - Guðjón Ingi Guðjónsson, sölu- og markaðsstjóri - 50 ára

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Guðjón og Ragnheiður Elín á Spáni árið 2004.
 

Lífið er saltfiskur - Guðjón Ingi Guðjónsson,

sölu- og markaðsstjóti er 50 ára

 

Guðjón fæddist í Reykjavík 22.7. 1964 og bjó í Vesturbænum, lengst af í Frostaskjólinu, til sjö ára aldurs, er fjölskyldan flutti til Akureyrar. Þar ólst Guðjón að mestu upp á Brekkunni og var m.a. í Lundarskóla, Gagnfræðaskóla Akureyrar og Iðnskólanum en þaðan útskrifaðist hann sem tækniteiknari.

Árið 1984 fluttist Guðjón til Reykjavíkur, hóf nám í Tækniskóla Íslands og útskrifaðist þaðan af rekstrarsviði sem útgerðartæknir árið 1987.

Guðjón var þrjú sumur í sveit á æskuárunum, tvö á Grund í Svarfaðardal og eitt í Víðigerði í Eyjafirði. Fjórtán ára vann hann í páskafríinu hjá Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar og seinna á sumrin hjá Útgerðarfélagi Akureyrar þar sem segja má að áhugi hans á sjávarútvegi hafi kviknað. Samhliða námi í Tækniskóla Íslands vann Guðjón m.a. hjá Granda.

 

Hefur selt saltfisk um árabil

Það má með sanni segja að hjá Guðjóni sé lífið saltfiskur því frá námi hefur allt hans starf snúist um saltfisk. Árið 1988 hóf Guðjón störf hjá SÍF, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, og starfaði þar í 16 ár. Hann var eftirlitsmaður fyrstu þrjú árin og ferðaðist þá vítt og breitt um landið og heimsótti saltfiskframleiðendur. Hann vann í tvö ár fyrir Nord Morue, dótturfélag SÍF í Frakklandi, við framleiðslu og gæðamál. Lengst af starfaði hann þó við sölu og markaðssetningu á saltfiski hjá SÍF og var síðustu árin forstöðumaður saltfisksviðs félagsins.

Árið 2004 stofnaði Guðjón, ásamt félögum sínum, fyrirtækið Sirius ehf. sem sérhæfði sig í kaupum og sölu á saltfiski og var Guðjón framkvæmdastjóri þess. Árið 2007 seldu þeir félagið til Icelandic Group en Guðjón rak það áfram til ársins 2011. Síðustu þrjú árin hefur Guðjón verið sölu- og markaðsstjóri hjá Seaproducts Iceland Ltd – svo enn er lífið saltfiskur. En fá menn þá ekki leiða á sífelldum saltfiski?

„Nei, nei. Sala og markaðssetning á saltfiski er líflegt og skemmtilegt starf og á þessum árum hef ég kynnst fjölmörgum í kringum starfið bæði hér á Íslandi en ekki síður í markaðslöndunum. En starfinu fylgja nokkur ferðalög,“ segir Guðjón.

 

Skíðaferðir og hjólreiðar

Í uppvextinum á Akureyri var Guðjón mikið á skíðum en hin síðari ár hefur útivist og ferðalög með fjölskyldunni tekið við: „Ég reyni að fara reglulega í ræktina og síðustu vikur hefur verið að kvikna áhugi hjá okkur hjónum á hjólreiðum. Við tókum einmitt þátt í okkar fyrsta hjólamóti fyrir nokkrum dögum.“

 

Fjölskylda

Eiginkona Guðjóns er Ragnheiður Elín Árnadóttir, f. 30.9. 1967, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Foreldrar hennar: Árni Þór Þorgrímsson, f. 6.8. 1931, flugumferðarstjóri, og Hólmfríður Guðmundsdóttir, f. 22.6. 1928, d. 6.2. 2003, aðalbókari.

Fyrri kona Guðjóns: Eva Sóley Sigurðardóttir, f. 15.2. 1966.

Dætur Guðjóns og Evu Sóleyjar: Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, f. 30.6. 1989, uppeldis- og menntunarfræðingur í Reykjanesbæ, en maður hennar er Ásgeir Elvar Garðarsson viðskiptafræðingur, og Karítas Sveina Guðjónsdóttir, f. 11.5. 1994, nemi í Reykjavík, en maður hennar er Alex Lee Rosado nemi.

Synir Guðjóns og Ragnheiðar Elínar eru Árni Þór Guðjónsson, f. 26.8. 2002, og Helgi Matthías Guðjónsson, f. 25.9. 2008.

Systkini Guðjóns eru Eva Björk Guðjónsdóttir, f. 24.11. 1966, deildarstjóri, búsett í Kópavogi; Jónína Guðjónsdóttir, f. 3.2. 1969, þroskaþjálfi í Garðabæ; Birgir Örn Guðjónsson, f. 28.7. 1976, lögreglumaður, búsettur í Hafnarfirði.

Foreldrar Guðjóns eru Guðjón Matthías Guðmundsson, f. 13.4. 1942, lengst af tannsmiður á Akureyri, nú búsettur í Kópavogi, og Sveinbjörg Laustsen, f. 27.10. 1946, húsfreyja.

Guðjón Ingi er tengdasonur Flateyrar. Önfirðingurinn með ræturnar í Faktorshúsinu á Flateyri, Ragnheiður Elín Árnadóttir, alþingismaður og ráðherra, ásamt eiginmanninum, Guðjóni Inga Guðjónssyni og sonum þeirra. Á myndinni er líka Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.  Myndin er frá opnun málverkasýningar Ásmundar í Forsæti í Flóa fyrir nokkrum árum. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

Skráð af Menningar-Staður