Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

25.07.2014 06:27

Ólafur Helgi verður lögreglustjóri á Suðurnesjum

alt

F.v.: Ólafur Helgi Kjartansson og Kjartan Þorkelsson.

 

Ólafur Helgi verður lögreglustjóri á Suðurnesjum

 

Í fréttatilkynningu frá Innanríkisráðuneytinun kemur fram að Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurnesjum frá næstu áramótum. Einnig að Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi. Þá verður Sigríður Björk Guðjónsdóttir fyrsta konan sem gegnir embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Ráðherra hefur í kjölfar niðurstöðu sérstakrar valnefndar tilkynnt um skipan í embætti lögreglustjóra í nýjum umdæmum. Samkvæmt nýjum lögum verður lögregluumdæmum fækkað úr 15 í 9 og mun breytingin taka gildi um næstu áramót. 

Skipan í embætti lögreglustjóra verður sem hér segir:
• Lögreglustjóri á Suðurlandi: Kjartan Þorkelsson.
• Lögreglustjóri á Austurlandi: Inger L. Jónsdóttir.
• Lögreglustjóri á Norðurlandi eystra: Halla Bergþóra Björnsdóttir.
• Lögreglustjóri á Norðurlandi vestra: Páll Björnsson.
• Lögreglustjóri á Vesturlandi: Úlfar Lúðvíksson.
• Lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu: Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
• Lögreglustjóri á Suðurnesjum: Ólafur Helgi Kjartansson.

Tvö embætti lögreglustjóra verða auglýst á næstu dögum, embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra:

„Efling löggæslunnar hefur verið eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar en með þessum breytingum verða til færri en um leið öflugri embætti. Minni yfirbygging, fjölbreyttur og sterkur hópur löggæslufólks, tækniframfarir og bættur búnaður lögreglu stuðlar að því að starfsemi lögreglunnar innan umdæma verði skipulögð með markvissari hætti. Ég býð nýskipaða lögreglustjóra velkomna til starfa og er þess fullviss að þeir muni leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi almennings og öfluga þjónustu á hverjum stað.“

Ráðherra ákveður að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra og aðra hagsmunaaðila hvar í umdæminu aðalstöð lögreglustjóra verður. Það verður hlutverk lögreglustjóra að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og jafnframt að ákveða hvaða starfslið hefur aðsetur á aðalstöð og öðrum varðstöðvum. Nú þegar hafa verið birt til kynningar og samráðs umræðuskjöl um umdæmamörk og starfsstöðvar nýrra embætta og hafa ráðuneytinu borist fjölmargar ábendingar og athugasemdir sem farið verður yfir með nýskipuðum lögreglustjórum.

 

Ólafr Helgi Kjartansson.

 

Skráð af Menningar-Staður