Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.07.2014 05:13

Merkir Íslendingar - Þórarinn Sigurjónsson

Þórarinn Sigurjónsson

 

Merkir Íslendingar - Þórarinn Sigurjónsson

 

Þórarinn Sigurjónsson alþingismaður fæddist í Sætúni í Vestmannaeyjum 26. júlí 1923. Foreldrar hans voru Sigurjón Árnason, bóndi og smiður í Pétursey í Mýrdal, og Sigríður Kristjánsdóttir húsfreyja.

Eftirlifandi eiginkona Þórarins er Ólöf Ingibjörg Haraldsdóttir húsfreyja og eru börn þeirra Sigríður, Haraldur, Kristín, Sigurjón sem lést í æsku, Sigurjón Þór sem lést í æsku og Ólafur Þór.

Þórarinn lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri 1943 og sinnti síðan ýmsum störfum til sjós og lands. Hann starfrækti um árabil alhliða viðgerðaverkstæði í Pétursey, ásamt uppeldisbróður sínum, Þórhalli, og stundaði fólks- og vöruflutninga á eigin bifreiðum.

Þórarinn var bústjóri í Laugardælum 1952-80. Hann var alþingismaður Sunnlendinga fyrir Framsóknarflokkinn 1974-87, sat á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins 1977-85, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980-83, var formaður Þingvallanefndar, Veiðimálanefndar ríkisins, Sauðfjársjúkdómanefndar, Sambands eggjaframleiðenda, Verkstjórafélags Suðurlands, sat í stjórn Verkstjórasambands Íslands, var sýslunefndarmaður Hraungerðishrepps, formaður Framsóknarfélags Árnessýslu um árabil, sat í stjórn Kaupfélags Árnesinga í 30 ár og var formaður þess um árabil og sat í stjórn SÍS 1968-92. Að auki voru honum falin fjölmörg önnur opinber trúnaðarstörf sem og í atvinnu- og félagslífi.

Þórarinn var alla tíð mikill áhugamaður um starf ungmennafélagshreyfingarinnar, var félagi í Rotary og lét sig miklu varða velferð Laugardælakirkju sem fyrir hans tilstuðlan og fleiri var endurreist á hinum forna kirkjustað fyrir nærri hálfri öld. Hann var meðal annars formaður sóknarnefndar og meðhjálpari um áratuga skeið.

Sigurjón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að landverndar- og landbúnaðarmálum

Sigurjón lést 20. júlí  2012.

Morgunblaðið laugardagurinn 26. júlí 2014 - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður