Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.07.2014 07:07

Upplifun á Íslandi sem ekki fæst keypt

 

Siggeir Ingólfsson og SEEDS-sjálfboðaliðarnir sem voru á Eyrarbakka fyrr í sumar.

 

Upplifun á Íslandi sem ekki fæst keypt

 

Árlega koma hingað til lands um 1.400 sjálfboðaliðar á vegum sjálfboðaliðasamtakanna SEEDS og taka sjálfboðaliðarnir þátt í yfir 150 verkefnum í ár. Samtökin, sem stofnuð voru árið 2005, senda einnig 60-70 Íslendinga árlega til þátttöku í sjálfboðaliðaverkefnum í 55-60 löndum um allan heim.

„Marga sjálfboðaliða okkar langaði til að heimsækja Ísland og kynnast landinu frá öðru sjónarhorni, vera færir um að eiga samskipti við heimamenn og á sama tíma helga hluta af tíma sínum í að styðja við ákveðin verkefni. Það sem sjálfboðaliðarnir fá í skiptum er svo margt. Á meðan þeir eiga samskipti við Íslendinga læra sjálfboðaliðarnir um menninguna og fá tækifæri til að þróa með sér vinskap. Auk þess öðlast þeir færni í að vinna í krefjandi og framandi umhverfi,“ segir Oscar Uscategui, framkvæmdastjóri SEEDS. Hann segir flesta sjálfboðaliðana vera háskólanema eða ungt fólk á vinnumarkaði. Sjálfboðaliðarnir koma í sumarfríum sínum til Íslands, kynnast landi og þjóð og finna að þeir láti gott af sér leiða á meðan á dvöl þeirra stendur. „Það verður öðruvísi upplifun hjá sjálfboðaliðunum en hjá öðrum ferðamönnum,“ segir Oscar.

 

Sex þúsund á níu árum

Samtökin skipuleggja vinnubúðir um allt land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög. Á þeim níu árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna hafa SEEDS ásamt samstarfsaðilum þeirra staðið fyrir hundruðum vinnubúða og tekið á móti fleiri en sex þúsund sjálfboðaliðum frá um 70 löndum. Oscar segir SEEDS vera ein stærstu samtök sinnar tegundar í heiminum, það er að segja af þeim samtökum sem skipuleggja sjálfboðaliðaverkefni með hópa.

„Sjálfboðaliðahóparnir samanstanda yfirleitt af átta til fimmtán sjálfboðaliðum og reynum við að hafa ekki fleiri en tvo frá sama landi,“ segir Oscar. Hann bætir við að einnig sé reynt að passa upp á kynjahlutföllin en konur séu í meirihluta hér á landi líkt og almennt gengur og gerist í sjálfboðaliðastarfi á heimsvísu.

Hann segir flest verkefni á vegum SEEDS vera fyrir þá einstaklinga sem náð hafa átján ára aldri, en þó með nokkrum undantekningum.

„Við bjóðum stundum upp á sjálfboðaliðaverkefni fyrir unglinga. Þá erum við einnig með verkefni fyrir þrjátíu ára og eldri og einnig með verkefni fyrir sextíu ára og eldri.“

 

Náttúruvernd og hátíðarhöld

„Flest þeirra verkefna sem sjálfboðaliðarnir á okkar vegum vinna að snúa að náttúruvernd eða menningarvarðveislu. Sjálfboðaliðarnir hafa einnig unnið verkefni í tengslum við ýmsar hátíðir,“ segir Oscar Uscategui, hjá samtökunum Seeds.

Mörg þeirra verkefna sem sjálfboðaliðar á vegum SEEDS hafa tekið þátt í hafa falist í fegrun umhverfisins með hreinsun og gróðursetningu, önnur í bættu aðgengi fyrir ferðamenn með lagningu og viðhaldi göngustíga, svo dæmi séu tekin. Einnig hafa sjálfboðaliðar SEEDS aðstoðað við undirbúning og framkvæmd ýmissa hátíða og menningarviðburða og árið í ár var engin undantekning þar á og tóku sjálfboðaliðarnir þátt í verkefnum í tengslum við nokkrar hátíðir. Þær hátíðir sem sjálfboðaliðarnir tóku þátt í voru til dæmis Fiskidagurinn mikli, Írskir dagar og Eistnaflug í Neskaupstað.

Á sviði félagsmála hafa sjálfboðaliðar SEEDS meðal annars aðstoðað Rauða krossinn við fjáröflun á aðventunni. Þá tóku hópar frá SEEDS þátt í hreinsunarstarfi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli. SEEDS hafa einnig unnið í ýmsum umhverfisverkefnum, t.d. í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og Umhverfisstofnun en einnig við smærri stofnanir og samtök.

 

Gestgjafinn sér um hópinn

Þegar sjálfboðaliðar á vegum SEEDS eru fengnir í verkefni er málum háttað á þann veg að samstarfsaðilinn, eða gestgjafinn eins og hann er einnig kallaður, útvegar fæði, húsnæði og einhverja afþreyingu fyrir sjálfboðaliðana yfir þann tíma sem verkefnið tekur. Hópurinn annast yfirleitt sjálfur matreiðslu og svefnaðstaðan er oftast svefnpokapláss að sögn Oscars.

„Sjálfboðaliðarnir vinna sex til átta klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar, og fyrir hópnum fer ávallt hópstjóri frá SEEDS,“ segir Oscar.

Hann segir verkefnin eiga að fela í sér eitthvert fræðslu- eða menntunargildi til að tryggja að sjálfboðaliðarnir öðlist nýja reynslu og þekkingu. „Verkefnin skulu vera til framdráttar fyrir samfélagið og að sjálfboðaliðunum séu ekki falin störf sem alla jafna væri greitt fyrir,“ segir Oscar.

SEEDS sjá um alla umsýslu, tryggingar og koma sjálfboðaliðunum alla jafna til og frá áfangastað.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 30. júlí 2014


Skráð af Menningar-Staður