Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.08.2014 21:13

Stærsti morgunverður landsins á Selfossi

 

 

Stærsti morgunverður landsins á Selfossi

Á miðvikudaginn 6. ágúst 2014 hefst fjölskylduhátíðin Sumar á Selfossi og stendur hún fram á sunnudag. Hátíðin hefur verið haldin síðan 1995 en útfærð á mismunandi hátt og hefur farið stækkandi í umsvifum síðan 2003.

 

Stærsti viðburður hátíðarinnar er morgunverður sem haldinn er á laugardagsmorgni 9. ágúst og er sá allra stærsti sem sögur fara af.

Hátíðarhaldarar bjóða öllum sem hafa áhuga á að koma í morgunmat sér að kostnaðarlausu. Guðnabakarí mun bjóða upp á rúnnstykki og fleira góðgæti. Í fyrra mættu um 4.000 manns en nú er talið að hátt í 5.000 manns muni mæta og gæða sér á kræsingunum. „Hátíðin Sumar á Selfossi snerist fyrst og fremst um það að fyrirtæki bæjarins buðu íbúum í morgunmat. Síðan var annarri hátíð, Sléttusöngnum, slegið saman við og síðan hefur hátíðin verið að stækka í umsvifum. Við erum alltaf að reyna að gera meira og betra,“ segir Guðjón Bjarni Hálfdánarson, einn hátíðarhaldara.

Á hátíðinni er ýmislegt um að vera og ber þar að nefna Froðufjör þar sem slökkvilið Árnessýslu sprautar froðu niður um 4 metra brekku og myndast þar froðupollur fyrir neðan sem krakkarnir geta leikið sér í. „Ef mamma og pabbi eru til þá geta þau sleppt barninu í sér og skellt sér í brekkuna,“ segir Guðjón kátur. Brúarhlaupið er eitt stærsta 21 km hlaup á landinu. Þangað mæta helstu hlauparar landsins til að keppa við að slá eigin met í 21 km hlaupum. „Við höfum skorað á Kára Stein Karlsson að koma hingað og keppa,“ segir Guðjón. „Hann er nú í rauninni tengdasonur Selfoss, þar sem hann nældi sér í eina Selfosssnót,“ segir hann og hlær.

Einnig verður Sléttusöngurinn á sínum stað þar sem Ingó úr Veðurguðunum leiðir sönginn. Þá verður flugeldasýning og einnig verða tónleikar öll kvöld og algengt er að hljómsveitir sem eru að stíga sín fyrstu skref troði upp á hátíðinni. Helgi Björns og Reiðmenn vindanna halda uppi fjörinu og spila á föstudagskvöldinu.

„Þar sem hátíðin er einungis stutt frá Reykjavík er kjörið fyrir fjölskyldur í Reykjavík og nágrenni að nýta daginn og taka sér bíltúr á Selfoss til að upplifa frábæra dagskrá,“ segir Guðjón að lokum.

Morgunblaðið sunnudaginn 3. ágúst 2013


Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Skráð af Menningar-Staður