Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.08.2014 06:55

Afdalabarn Guðrúnar væntanlegt í innbundinni útgáfu

 

 

Afdalabarn Guðrúnar væntanlegt í innbundinni útgáfu

 

Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi trónir enn í efsta sæti á metsölulista Eymundsson. Fyrsta prentun er uppseld og önnur prentun á leið í verslanir. Bókin kom út í kilju en til stendur að hún komi einnig út í innbundinni útgáfu innan skamms. „Það er mikið spurt um innbundna útgáfu á bókinni,“ segir Bjarni Harðarson bóksali, sem er útgefandi bókarinnar. „Kiljur seljast venjulega betur en innbundnar bækur, en sumir bókakaupendur eru ekki sérstakir kiljuaðdáendur og finnst ekki gaman að eiga bókaskáp fullan af kiljum. Mér finnst sjálfsagt að þjóna þessu fólki og mun því gefa bókina út innbundna. Jólavertíðin nálgast og það segir sig sjálft að það er ekki sambærilegt að gefa Afdalabarn sem gjöf innbundna eða í kilju.“

Bjarni segir að það hafi komið sér á óvart hversu miklar vinsældir bókarinnar eru. „Ég hef fylgst með endurútgáfum á verkum íslenskra höfunda undanfarin ár og þær hafa ekki verið að seljast mjög mikið. Það er ekkert sjálfsagt að hægt sé að endurútgefa bækur höfunda sem eitt sinn voru vinsælir. Ég var samt nokkuð viss um að hægt væri að endurútgefa Guðrúnu og að útgáfan myndi standa undir sér, en mig grunaði ekki að undirtekir yrðu svona glæsilegar. Það er svo ekki verra að vera með jafn öflugan dreifingar- og markaðsstjóra á sínum snærum og Guðjón Ragnar Jónasson vinur minn er.“

Bjarni segist ekki geta sagt til um það að svo stöddu hvort hann muni endurútgefa fleiri verk Guðrúnar. „Það er ekki víst að þessar undirtektir eigi við um allar bækur Guðrúnar. Hún er vissulega öflugur og góður höfundur eins og þessar vinsældir Afdalabarns sýna en ekki má vanmeta það að hluti af þessari sprengju er gamlir og kærir endurfundir. Það er hálfur annar áratugur síðan verk eftir Guðrúnu var endurútgefið og nú er Afdalabarn komið á markað. Ég vona að það líði ekki alveg jafn langur tími þar til fleiri verk hennar verða endurútgefin.“

Morgunblaðið sunnudagurinn 24. ágúst 2014

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Bjarni Harðarson í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.

Skráð af Menningar-Staður