Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.08.2014 18:22

Skot-dagur Surtlu 30. ágúst 1952

 

Surtla.

 

Skot-dagur Surtlu 30. ágúst 1952

 

Sauðkindin Surtla var skotin við Herdísarvík, en Sauðfjárveikivarnir höfðu lagt fé til höfuðs henni. Vísir sagði að kindin hefði verið „elt eins og óargadýr“

 

Morgunblaðið föstudagurinn 30. ágúst 2013 - dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

 

Herdísarvíkur-Surtla

 

Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla, sem var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi. Hlín var sambýliskona Einars Benediktssonar skálds. Surtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.

Í fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.

Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir langan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist.

Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.

 

Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli.

 

Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hékk lengi uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum en er nú í Sauðfjársetrinu á Ströndum eins og hér má sjá:

 

Skráð af Menningar-Staður