Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.09.2014 07:12

Regína Guðjónsdóttir - Fædd 21. maí 1949 - Dáin 22. september 2014 - Minning

 

Regína Guðjónsdóttir.

 

Regína Guðjónsdóttir - Fædd 21. maí 1949 -

Dáin 22. september 2014 - Minning

 Regína Guðjónsdóttir frá Steinsbæ fæddist 21. maí 1949. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands mánudaginn 22. september 2014.

Foreldrar hennar eru Gyðríður Sigurðardóttir, fædd 22. september 1929, lést 28. maí 2012. Faðir hennar er Halldór Guðjón Pálsson, fæddur 9. maí 1924. Regína átti 3 systkini; Dreng Guðjónsson sem fæddist andvana 1951, Ingileif, fædda 1952 og Margréti, fædda 1956. Regína byrjaði snemma í sambúð með Jóni Baldvini Sveinssyni, fæddum 1945, Eignuðust þau soninn Halldór Jónsson, fæddan 1967, á hann 2 börn og 2 barnabörn. Eftir að slitnaði upp úr sambandi þeirra kynntist hún Þorsteini Jóni Björgólfssyni, fæddum 1950, frá Vopnafirði, lést hann í sjóslysi 1981, þau áttu saman 3 börn: Höllu Björgu, fædda 1972, hún á 3 börn, Hlöðver fæddan, 1973, giftan Þóru Ósk Guðjónsdóttur, eiga þau saman 3 börn og Gyðu Steinu, fædda 1981, sambýlismaður hennar er Ottó Rafn Halldórsson og eiga þau 2 börn. Árið 1988 kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Siggeiri Ingólfssyni frá Stokkseyri. Giftu þau sig 26. júlí 1994. Hann átti fyrir 2 dætur, Sigurlaugu, fædda 1971 og á hún 1 barn, og Önnu Rögnu, fædda 1975 og á hún 3 börn og 1 barnabarn.

Regína Guðjónsdóttir var alla sína tíð verkakona, vann við ýmis störf. Félagsstörfum hafði hún mikinn áhuga á og var hún formaður Félags eldri borgara á Eyrarbakka og meðlimur í Soroptimistafélaginu á Íslandi. Síðustu 10 árin helgaði hún sig handverki og var með Gallerí Regínu á Eyrarbakka.

Útför Regínu fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, laugardaginn 27. september 2014, kl. 11.
 

_________________________________________________________________

Minningarorð Ingunnar Óskarsdóttur

Heiðurskonan Regína Guðjónsdóttir er látin eftir erfiða sjúkdómslegu. Hún kvaddi þetta líf á afmælisdegi móður sinnar hennar Gyðu Sigurðardóttur sem fædd var 22. september 1929 og andaðist 28. maí árið 2012.

Að ógleymdri ástinni

er hugrekki stærsta gjöfin.

Við höfum öll tapað

margoft – en

ef við kunnum að tapa

lærum af því

og reynum aðra leið

þá verður okkur

vel ágengt.

(Rosanne Ambrose Brown)

Þetta fallega kvæði minnir mig á Regínu. Henni var gefinn stór skammtur af hugrekki og æðruleysi sem best kom fram í banalegu hennar. Eins og Halldór sonur hennar sagði: „Eins og ég hef sagt áður þá lærði ég meira af þér á þínu veikindatímabili en öll árin þar á undan og þegar við heimsóttum þig á sjúkrahúsið og áttum að vera þín stoð og stytta þá snérist það einhvernveginn við og þú hughreystir okkur.“

Regína tók erfiðustu fréttum, sem nokkur manneskja getur fengið – fréttinni um að sjúkdómurinn hefði haft vinninginn og hún hefði tapað, með ótrúlegri reisn. Hún stóð sig eins og hetja fram á síðasta dag. Nú er hún komin á leiðarenda – allt of snemma að sjálfsögðu – en henni er ætlað annað hlutverk héðan í frá. Efast ekki um að elsku Gyða móðir hennar hafi tekið hana í faðminn um leið og hún fór yfir.

Elsku Geiri, Halldór, Halla Björg, Hlöðver og Gyða Steina. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Veit vel að það er erfiður tími framundan hjá ykkur öllum. En minningin um yndislega eiginkonu, frábæra móður og ömmu mun alltaf ylja ykkur um hjartarætur og hjálpa ykkur í framtíðinni. Guð geymi Regínu fyrir okkur öll. Hennar verður sárt saknað.

Ingunn Óskarsdóttir.
_____________________________________________________________________

Minningarorð:  Sigríður Ísafold, Elín og Ingibjörg Kristín.

Fallin er nú frá fyrir aldur fram ástkær mágkona okkar. Um tíma héldum við að hún hefði betur, vegna þess hversu mikil baráttukona hún var. Hún var ekki á því að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Það var lærdómsríkt að sjá hvernig hún tók á málum því lífið hafði ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum.

Það lék allt í höndunum á henni og stundum fengum við hjá henni fallegar flíkur. Ein okkar minnist þess þegar hún pantaði vesti fyrir barnaafmæli, þá átti hún ekki stærðina, en kom með vestið tilbúið nokkrum dögum síðar. Þetta er dæmi um það hversu fljótt og vel hún afgreiddi hlutina.

Það var fallegt að sjá samband hennar og bróður okkar og hvernig þau hjálpuðust að í gleði og sorgum. Við þökkum samfylgdina og vottum aðstandendum dýpstu samúð.

Sigríður Ísafold, Elín

og Ingibjörg Kristín.Morgunblaðið laugardagurinn 27. september 2014