Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.09.2014 06:51

Merkir Íslendingar - Bergur Guðnason

 

Bergur Guðnason.

Merkir Íslendingar - Bergur Guðnason

 

Bergur fæddist í Reykjavík 29. september 1941. Foreldrar hans voru Guðni Jónsson prófessor og k.h., Sigríður Hjördís Einarsdóttir húsfreyja.

Guðni var sonur Jóns, formanns á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka Guðmundssonar, formanns þar Þorkelssonar, bróður Jóhanns, afa Ragnars í Smára.

Sigríður Hjördís var systir Guðmundar frá Miðdal, föður Errós og Ara Trausta. Sigríður var dóttir Einars, b. í Miðdal, bróður Eiríks, afa Vigdísar Finnbogadóttur. Meðal hálfsystkina Bergs eru prófessorarnir Jón og Bjarni Guðnasynir.

Eiginkona Bergs var Hjördís Böðvarsdóttir sem lést 2012 og eru börn þeirra Guðni, lögfræðingur og fyrrv. landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu; Sigríður fjölmiðlafræðingur og sölumennirnir Böðvar og Bergur Þór. Sonur Bergs frá því áður er Þorsteinn, bóndi og þýðandi.

Bergur lauk stúdentsprófi frá MR 1960 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1968. Hann stjórnaði þættinum Lög unga fólksins í ríkisútvarpinu, sem þá var eina íslenska útvarpsstöðin, og þýddi einn vinsælasta sjónvarpsþáttinn á fyrstu árum ríkissjónvarpsins, Dýrlinginn.

Bergur var lögfræðingur hjá skattstjóranum í Reykjavík til 1977 og starfrækti síðan eigin lögmannsstofu í Reykjavík. Hann sérhæfði sig í skattamálum og var m.a. stundakennari í skattarétti við HÍ á árunum 1974-79. Auk þess sinnti hann almennum málflutningsstörfum og fasteignaviðskiptum.

Bergur keppti í knattspyrnu og handbolta með Val um árabil og var landsliðsmaður í handbolta, en Bjarni, hálfbróðir hans, var einnig landsliðsmaður í knattspyrnu. Bergur sneri sér síðan að golfi hjá Golfklúbbi Reykjavíkur, lék golf af miklum áhuga í marga áratugi og keppti á mótum. Hann var formaður Vals 1977-81, sat í stjórn Handknattleikssambands Íslands og átti sæti í íþróttadómstól ÍSÍ um langa hríð.

Bergur hlaut heiðursmerki fyrir störf sín fyrir Val og íþróttahreyfinguna.

Bergur lést 5. nóvember 2009.

Morgunblaðið mánudagurinn 29. september 2014 - Merkir Íslendingar

Skráð af Menningar-Staður