Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.09.2014 06:58

Merkir Íslendingar - Jón Borgfirðingur

 

Jón Borgfirðingur.

Merkir Íslendingar - Jón Borgfirðingur

 

Jón Borgfirðingur fæddist á Hvanneyri í Borgarfirði 30. september 1826. Foreldrar hans voru Jón Bachmann Hallgrímsson, prestur í Hestaþingum í Borgarfirði og síðast í Klausturhólum, og Guðríður Jónsdóttir, vinnukona á Hvanneyri.

Eiginkona Jóns var Anna Guðrún Eiríksdóttir, ættuð úr Eyjafirði og voru börn þeirra Guðrún Borgfjörð; Finnur, prófessor í Kaupmannahöfn; Klemens, landritari og ráðherra í Reykjavík; Guðný, sýslumannsfrú á Sauðafelli í Dölum; Vilhjálmur Borgfjörð, cand. phil. og póstmeistari í Reykjavík, og Ingólfur skrifstofumaður. Dóttir Jóns og Sigurlaugar Þórðardóttur var Sigurjóna, húsfreyja á Kvíabekk.

Jón ólst upp hjá fátækum hjónum í Svíra við Hvanneyri. Hann lærði að lesa og skrifa en hafði engin ráð á skólanámi þó hann væri bráðskarpur og afa bókhneigður. Hann var vinnumaður á Hvanneyri og víðar en flutti til Reykjavíkur 1852 og fékkst einkum við farandbóksölu. Hann kenndi sér sjálfur dönsku, flutti til Akureyrar 1854, lærði þar bókband og stundaði þar bókbandsiðn, bókaútgáfu og bókasölu.

Jón flutti aftur til Reykjavíkur 1865 og var þar lögregluþjónn í 23 ár. Jafnframt sinnti hann rit- og fræðistörfum. Hann tók m.a. saman lista fyrir British Museum yfir allar bækur sem prentaðar höfðu verið í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi, og í framhaldi af því ýmsa aðra lista yfir íslensk rit fyrir ýmis erlend bókasöfn. Þá var hann umboðsmaður British Museum hér á landi. Jón var mikill bóka- og handritasafnari en skorti þó æði oft fé til að festa kaup á þeim bókum og handritum sem hugurinn stóð til. Hann ánafnaði síðan Bókmenntafélaginu safn sitt og þar á meðal ýmis fágæt rit og skjöl, enda kjörinn heiðursfélagi þess.

Þrátt fyrir fátækt og menntunarskort tókst þeim Jóni og Önnu Guðrúnu að koma öllum börnum sínum til mennta og urðu tveir sona þeirra landskunnir fræðimenn.

Jón lést 20. október 1912.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 30. september 2014 - Merkir Íslendingar


Hvanneyri í Borgarfirði.

Skráð af Menningar-Staður