Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

06.10.2014 06:27

Gorbatsjov flytur í Svalbarð

 

 

Brúnstaðabræðurnir Tryggvi og Guðni Ágústssynir báru -Gorba- inn á Forystufjársetrið að Svalbarði. 

 

 

Gorbatsjov flytur í Svalbarð

• Fullt út úr dyrum á Hrútadeginum

 

Það fjölgaði á Fræðasetri um forystufé á Svalbarði þegar Hrútavinafélagið Örvar kom þangað með fríðu föruneyti á laugardaginn. Í fararbroddi var Guðni Ágústsson, heiðursforseti félagsins, sem kom færandi hendi með forystuhrútinn Gorbatsjov sem upphaflega var í eigu Guðna.

Hinn uppstoppaði Gorbatsjov fær nú varanlega búsetu í Fræðasetrinu og var borinn þangað inn með viðhöfn. Hann sómir sér vel á sviðinu við hlið Fengs frá Ytra-Álandi og álítur Guðni að honum muni líka vel vistin í Norður-Þingeyjarsýslu, sem er Mekka forystufjár.

Kátt var hjá Hrútavinafélaginu á Svalbarði þar sem menn voru ósparir á vísur og kveðlinga. Daníel Hansen forstöðumaður bauð gestunum upp á grillað forystulambakjöt og sérblandað kaffi, Ærblöndu, sem aðeins fæst á Fræðasetrinu.

Fjöldi gesta hefur heimsótt Fræðasetrið frá opnun þess í sumar en um 800 manns komu þangað á átta vikum, flestir Íslendingar en rússneskum gestum gæti þó fjölgað í framtíðinni eftir komu Gorbatsjovs á svæðið, töldu Hrútavinir. Þessi þrjátíu manna hópur sem fylgdi Gorbatsjov á framtíðarheimilið hélt síðan áfram til Raufarhafnar til að fagna þar Hrútadeginum mikla sem er vel við hæfi í slíku félagi.

 

Besti hrúturinn boðinn upp

„Það var mögnuð mæting af gestum og gangandi, kaupendum og seljendum,“ segir Árni Gunnarsson frá Sveinungsvík, einn af skipuleggjendum Hrútadagsins á Raufarhöfn, en hátíðin hefur verið haldin síðan árið 2005, þó með hléi í fyrra.

Spennandi dagskrá var í boði fyrir gesti hátíðarinnar, en dagskráin innihélt m.a. hrútahlaup, skemmtiatriði frá Hrútavinafélaginu Örvari, Hagyrðingakvöld og dansleik, þar sem fullt var út úr dyrum og farið með góðar vísur.

Kótelettufélag Íslands var á svæðinu og valdi besta kótelettuhrútinn. Hrúturinn myndarlegi, Þorlákur,var í eigu Árna, og var verðmætasti hrúturinn á hrútauppboðinu. Þrír hrútar voru boðnir upp og fór Þorlákur á hæsta verðinu, en hann seldist á rúmar 150 þúsund krónur Tryggva Ágústssyni og félögum. „Hann er feiknaskrokkur og vel gerð skepna,“ segir Árni um hrútinn verðmæta.

Morgunblaðið mánudagurinn 5. óktóber 2014


 

Menningar-Staður var á staðnum og færði til myndar:

 

.

Sigurður Þ. Ragnarsson  "Siggi stormur" var með í samvinnuferð Hrútavinafélagsins Örvars norður dagana 2. - 4. okt. og var allt tekið upp og verður sýnt á sjónvarpsstöðinni INN.

.

.

Margrét Hauksdóttir, eiginkona Guðna Ágústssonar, kveður Gorba.

.

.

 

Hrútavinir.

 

.

Sunnlendingarnir toppuðu á hrútauppboðinu.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður