Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.10.2014 07:27

Heldur tónleika í kvöld í Salnum

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Gunnar og Halldór munu m.a. leika Tilbrigði eftir Beethoven við stef úr Töfraflautunni eftir Mozart og ljóðalög eftir Brahms.

 

Heldur tónleika í kvöld í Salnum

Séra Gunnar Björnsson 70 ára í dag

 

Gunnar Björnsson, prestur og cellóleikari, heldur tónleika í kvöld í tilefni af afmælinu. „Ég hef klimprað ögn á hljóðfæri frá því ég man eftir mér, lærði á píanó, fyrst hjá prúðmenninu Carli Billich. Ég var feilnótusæll krakki og þegar ég sló vitlausa nótu, beitti pabbi mig höstugu aðkalli. Ágústa Ágústsdóttir, kona mín, gaf út geisladisk fyrir skemmstu með óperuaríum og ljóðalögum, en ég potaði undir á píanó í stórum veikleika. Ég kenndi við Tónlistarskóla Bolungarvíkur og fleiri góða skóla, en veit ekki um árangurinn, því að kennari getur aldrei kennt neitt annað en sjálfan sig. Ég held samt, að ég hafi verið sæmilegur vélritunarkennari.

Dr. Heinz Edelstein stofnaði Barnamúsíkskólann árið 1952. Hann mælti svo fyrir, að ég skyldi læra á celló. Ég innritaðist í Tónlistarskólann, lærði hjá Einari Vigfússyni, lauk einleiksprófi og spilaði í Sinfóníuhljómsveitinni í nokkur ár. Á öldinni sem leið sótti ég cellónámskeið í Weimar, Lübeck og Hartt School of Music í Connecticut í Bandaríkjunum.

Í kvöld læt ég mig hafa það að halda afmælistónleika í Salnum í Kópavogi og hefjast þeir kl. 20.00. Með mér leikur Halldór Haraldsson píanóleikari, mikill virtúós og hámenntaður, fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.“

Morgunblaðið miðvikudagurinn 15. október 2014

.

Skráð af Menningar-Staður